Verkfalli starfsmanna Rio Tinto Alcan var frestað í gær, en það átti að hefjast á miðnætti. Samningar hafa ekki náðst, og hefur samninganefnd starfsmanna álversins frá því greint að hún telji að lengra verði ekki farið að þessu sinni, þar sem Rio Tinto vilji ekki semja.
Í tilkynningu frá starfsmönnum þessa risavaxna alþjóðlega fyrirtækisins, er fyrirtækið gagnrýnt harðlega, og sagt að starfsfólk upplifi sig sem leiksoppa í hagsmunatafli Rio Tinto.
„Krafa starfsfólksins er og hefur alltaf verið skýr. Sambærilegar launahækkanir og samið hefur verið um á almennum vinnumarkaði og áréttað er að í engum kjarasamningum hafa starfsmenn þurft að semja frá sér störf yfir í annað og lakara launa- og réttindakerfi. Kjarasamningur verkalýðsfélaganna við ISAL hefur tryggt fyrirtækinu meiri vinnufrið og stöðugt og gott aðgengi að starfsfólki. Það er því starfsfólkinu þungbært að upplifa sig sem leiksoppa í hagsmunatafli Rio Tinto gegn launafólki víðs vegar um heiminn.“
Ef það kemur í ljós, að Rio Tinto er að haga sé með þessum hætti, sem starfsfólkið telur sig upplifa, þá er það skammarlegt. Ef að Rio Tinto hefur það í hyggju að loka álverinu, og er að reyna að snúa stöðunni þannig að það sé starfsmönnum í launabaráttu að kenna, þá er það gjörsamlega siðlaust, og stjórnendum Rio Tinto Alcan á Íslandi til skammar.
Vonandi leysist málið farsællega að lokum, en því miður er fátt sem bendir til þess.