Í ritstjórnargrein Kjarnans 1. desember sl. er þeirri spurningu beint til hagstofustjóra hvort Hagstofan sé að bregðast við pólitískum þrýstingi með útgáfu greinargerðar um búferlaflutninga íslenskra ríkisborgara sem birt var 27. nóvember sl.
Hagstofan var ekki að bregðast við pólitískum þrýstingi. Hagstofa Íslands gaf út frétt um mannfjölda á 3. ársfjórðungi þann 3. nóvember sl. Í kjölfar þessarar fréttar varð mikil umræða í fjölmiðlum og fékk Hagstofan fyrirspurnir um búferlaflutninga og þróun þeirra. Ef tölur á vef Hagstofunnar eru skoðaðar sést að búferlaflutningar aukast á fyrstu ársfjórðungum þessa árs og um það er ekki deilt. Ákveðið var að skoða betur hvort búferlaflutningar íslenskra ríkisborgara á fyrstu þremur ársfjórðungum 2015 væri frábrugðinn því sem áður hefði sést og hvaða þættir hafi áhrif á búferlaflutninga íslenskra ríkisborgara. Niðurstaða Hagstofunnar var að það væri ekki marktækur munur á hlutfalli íslenskra ríkisborgara sem flytja til og frá landinu það sem af er árinu 2015 í samanburði við sambærilegt hlutfall 1986 til 2014. Hagstofan taldi greininguna eiga erindi til notenda og birti sem greinargerð föstudaginn 27. nóvember.
Haustið 2013 var gert gæðamat á Hagstofu Íslands, sem var birt í júlí 2014. Sambærilegt gæðamat var get á öllum hagstofum sem starfa í Evrópska hagskýrslusamstarfinu, en þar er um að ræða aðildarríki ESB og EFTA. Niðurstöður fyrir hvert ríki má sjá á heimasíðu Eurostat auk þess að niðurstöður um Ísland eru á vef Hagstofunnar. Gæðamatið fór þannig fram að farið var yfir meginreglur í evrópskri hagskýrslugerð (European Statistical Code of Practice) og lagt mat á það í hve miklum mæli hagstofurnar mæta þeim kröfum sem þar eru settar fram. Markmiðið er að hagstofurnar uppfylli reglurnar að fullu. Eitt af því sem matsteymið lagði áherslu á og benti á til úrbóta hjá Hagstofu Íslands var að Hagstofan yrði að sýna meira frumkvæði og bregðast við umræðum um hagskýrslur. Eftirfarandi kemur fram í skýrslunni:
„Meiri opinber umfjöllun og hagskýrslur sem byggjast á dýpri greiningu (núverandi Hagskýrslur eru heldur daufar) myndi verða til þess að auka áhrif Hagstofunnar.“ „Gæðaúttektaraðilarnir voru upplýstir um að Hagstofan hafi í gegnum tíðina hikað við að koma fram í fjölmiðlum í tengslum við stjórnmálaumræðu um hagskýrslur, og engin formleg stefna sé til staðar um að bregðast skjótt við gagnrýni og mögulegri rangri notkun á hagtölum frá Hagstofunni.“
Til að bregðast við þessu var lagt til:
„Hagstofa Íslands taki meira frumkvæði í samskiptum við fjölmiðla, t.d. með því að halda blaðamannafundi og málstofur, bæði til að auka þekkingu á starfi Hagstofunnar og styrkja almannatengsl hennar.“
Hagstofan hefur brugðist við framangreindu með því að bæta framsetningu hagskýrslna, aukið skýringar og sett tölurnar í samhengi þar sem það á við. Auk þess hafa sérfræðingar Hagstofunnar verið duglegir við að skýra hagtölur út fyrir fjölmiðlum og notendum. Loks hefur Hagstofan aukið greiningar sínar og birt í sérstakri ritröð sem hóf göngu sína á síðasta ári undir heitinu greinargerðir. Í framtíðinni er stefnan að auka þessar greiningar og bregðast oftar við almennri umfjöllun í fjölmiðlum, en ekki er mögulegt að bregðast við einstökum greinum, hvað þá bloggi eða facebook færslum. Nýjasta greiningin sem Hagstofan hefur birt er hér til umræðu.
Hverjar eru niðurstöður Hagstofunnar
Í greiningu Hagstofunnar er ekki verið að endurskoða áður birtar niðurstöður. Ef tölur á vef Hagstofunnar um búferlaflutninga eru skoðaðar sést að fjöldinn vex ár frá ári og er hluti skýringarinnar að landsmönnum hefur fjölgað og einnig að hlutfallslega fleiri flytja til og frá landinu en áður. Ef skoðaður er fjöldi brottfluttra ár hvert á hverja 1.000 íbúa eða sem hlutfall af mannfjölda sést svipuð þróun. Sambærileg þróun sést við skoðun á fjölda aðfluttra.
Niðurstöður greiningarinnar eru þær að ekki eru tölfræðilega martækar breytingar á búferlaflutningum á fyrstu þremur ársfjórðungum árið 2015. Einu marktæku breytingarnar eru að aldurshópurinn 40-44 ára er hreyfanlegri en undanfarin ár, það er meiri brottflutningur og innflutningur í þeim hópi en áður. Þá má sjá meiri hreyfanleika fólks til og frá landinu eftir hrun bankanna, einkum frá árinu 2010. Miðað var við árið 1986 þar sem ársfjórðungsgögn ná einungis aftur til þess tíma. Beitt er stöðluðum þekktum aðferðum við greininguna sem nýta sér breytingar milli ára þar sem þær hafa stöðugri dreifingu en hlutfall hvers árs. Nákvæma lýsingu á aðferðunum má sjá á vef Hagstofunnar í greinargerð og stuttri frétt um niðurstöður hennar 27. nóvember. Hagstofan fagnar umræðum um aðferðarfræði og greiningar og eru sérfræðingar hennar tilbúnir til að ræða þær. Hagstofan mun birta niðurstöður um fjórða ársfjórðung í árbyrjun 2016.
Niðurstaða
Hagstofan hafnar alfarið þeim getgátum sem settar eru fram í Kjarnanum um að stofnunin hafi verið að bregðast við pólitískum þrýstingi. Svo virðist sem menn skiptist í tvo flokka, annars vegar þá sem telja að um stórkostlega fólksflutninga sé að ræða frá landinu og hinsvegar þá sem túlka greiningu Hagstofunnar sem svo að engin breyting hafi orðið. Hagstofan tekur ekki þátt í umræðum um hvað er hugsanlega gott eða slæmt við búferlaflutninga, en telur að framangreindar ályktanir sé ekki hægt að draga af gögnunum og greiningunni á þeim. Hagstofan hvetur lesendur til að kynna sér vef Hagstofunnar og tölulegar upplýsingar sem þar er að finna um hina ýmsu þætti efnahags- og félagsmála.
Höfundur er hagstofustjóri.