Ég fann hvernig mín eigin hneykslun magnaðist þegar ég las Facebook færslu þar sem var hneykslast á bröndurum Dóra DNA á Snapchat - aðgangi Nova. Bara einum degi áður hafði sama manneskja hneykslast á dekkjaauglýsingu Dekkverks. Ég var hneykslaður á hneyksluninni og svo hefði bara einhver þurft að vera hneykslaður á minni hneykslun og þar með hefði verið sett fram gott hneykslception.
Að mínu mati stormaði óvenju margt um í vatnsglasinu í síðustu viku en þó fór afsökunarbeiðni Nova á bröndurum Dóra DNA mest fyrir brjóstið á mér. Það er vegna þess að löngum hefur mér þótt fyrirtækið frekar töff. Nova byggði upp vinsældir sínar á því að nálgast ungt fólk, bjóða því að hringja í raun frítt sín á milli og gefa skít í það hvort hægt væri að hringja í foreldrana undir slagorðinu stærsti skemmtistaður í heimi. Þetta var ferskt, nýtt fyrirtæki sem var framsækið á margan hátt, bauð upp á góða og umfram allt skemmtilega þjónustu ásamt því að fara óhefðbundnar leiðir í markaðssetningu með trúbadorum á þjóðhátíð og þar fram eftir götum.
Ælir ekki alltaf einhver á stærsta skemmtistað í heimi?
Undanfarið ár hefur mér þó fundist ákveðinn stofnanabragur færast yfir Nova í takt við það sem maður finnur helst fyrir hjá Símanum, Vodafone og rótgrónum fyrirtækjum á öðrum mörkuðum. Ég hef ekki náð að festa fingur á hvers vegna þessi tilfinning leitar á mig þar til núna.
Einhvern veginn hefði maður haldið að þegar maður rekur stærsta skemmtistað í heimi geri maður sér grein fyrir því að einhverjum muni ekki líka tónlistin. En einnig að í fyllingu tímans muni einhver fara yfir strikið, gera eitthvað óviðeigandi í partýinu. Það er einfaldlega hluti af prógramminu. „Cost of doing business,“ eins og maður segir á góðri íslensku.
Án þess að leggja neitt gildismat á það hvort að brandarar Dóra hafi farið yfir strikið finnst mér ótrúlega sorglegt þegar fyrirtæki eins framsækið og Nova biðst afsökunar um leið og rétttrúnaðarkórinn hefur söng sinn. Að fyrirtæki sem byggir sérstöðu sína á því að taka sig ekki of hátíðlega láti jafn auðveldlega undan örfáum hræðum sem hneykslast á einu máli fyrir hádegi og öðru eftir hádegi.
Hluti af stærra vandamáli
Það er hins vegar ekki svo að skilja að Nova sé eitt um slíkt heldur er þetta öllu stærra vandamál því á undanförnum árum hefur mér þótt íslensk fyrirtæki vera einstaklega viðkvæm fyrir pólitískum rétttrúnaði og hrædd við að standa í lappirnar. Þó að einhver hneykslist á sá hinn sami ekkert tilkall til afsökunarbeiðni. Fyrirtæki ættu að hugleiða það vel hvort hneykslanin eigi rétt á sér eða skipti máli fyrir grunnkúnnahópinn áður en beðist er afsökunar. Þau ættu að velta því fyrir sér hvort vörumerkið bíði hnekki af því að láta undan.
Sjálfur er ég sennilega einn traustasti viðskiptavinur Dominos og Vífilfells á Íslandi auk þess sem seint verður ofsögum sagt af ást minni á Apple-vörum. Þá fer ég yfirleitt á sama skemmtistað, drekk sömu tegundina af bjór og hef aldrei skipt um banka. Nova hefur síðan verið eitt af þeim fyrirtækjum sem hafa höfðað sérstaklega til mín. Núna er hins vegar lítið eftir sem heldur í mig og ég vona Nova vegna að ég sé einn um þessa skoðun, en mig grunar reyndar að svo sé ekki. Ég held að það væri miklu farsælla fyrir íslensk fyritæki að hafa hugrekki til þess að standa með sjálfum sér, því fyrir mér þá missa þau sérstöðu sína um leið og þau reyna að geðjast öllum. Þess vegna skora ég á Nova og önnur íslensk fyrirtæki að láta ekki jafn auðveldlega undan hinum pólitíska rétttrúnaði.