Málflutningur hans hefur oft verið á tæpasta vaði, og í mörgum tilvikum hefur hann sett fram sjónarmið - algjörlega án rökstuðnings - sem erfitt er að skýra öðruvísi en sem hreina fordóma.
Í gær steig hann yfir línuna í þessum efnum, og kom út úr skápnum sem fordómafullur einfeldningur, þegar hann lagði til að öllum múslimum yrði bannað að koma til Bandaríkjanna. Þetta sagði hann vegna árásanna í San Bernardino í Kalifornínu, þar sem fjórtán létust og sautján særðust, í skotárás.
Ummælin standa eftir svo til alveg órökstudd, nema hvað hann lét fylgja með að það væru of margir múslimar sem vildu skaða Bandaríkin. Á meðan svo væri þyrfti að koma í veg fyrir að þeir kæmu til Bandaríkjanna, allir með tölu, og þetta ætti líka að gilda um ferðamenn.
Fyrir utan hversu glórulaus ummælin eru og ekki svaraverð, ekki síst út frá persónufrelsissjónarmiðum og almennu siðferði, þá gæti verið hollt fyrir Trump að gefa sér góðan tíma til þess að kynna sér upplýsingar um skotárásir í Bandaríkjunum, og velta fyrir sér hvort múslímar séu það sem helst skelfir almenning í Bandaríkjunum.
Á þessu ári er talið að fleiri muni deyja vegna skotárása í Bandaríkjunum heldur en vegna bílslysa, en slíkt þekkist hvergi í þróuðu ríki. Talan nálgast óðfluga 35 þúsund mannslíf, miklu meira en sem nemur heildarfjölda mannslífa sem deyr á heimsvísu vegna hryðjuverka. Á hverja hundrað þúsund íbúa deyja að meðaltali 3,7 vegna skotárása ár hvert í Bandaríkjunum, en meðaltalið í flestum öðrum þróuðum ríkjum heimsins nær ekki 0,4 og er algengt að það sé töluvert undir 0,2.
Múslimar eru ekki þeir sem standa fyrir þessum árásum, nema þá í örsmáu hlutfalli af heildinni. Trump hefur ekki séð neina ástæðu til þess að fjalla um það sérstaklega, en hann fellur beint í gildru hryðjuverkamanna sem vilja ala á óttanum meðal almennings. Viðbrögð hans við skotárásum, þar sem kristnir Bandaríkjamenn hafa verið að skjóta samborgara sína, hafa til þessa verið þau að líklega hefði farið öðruvísi ef fórnarlömbin hefðu verið vopnuð. Svipað mátt sjá haft eftir honum, eftir árásirnar skelfilegu í París.
Því miður hefur óttinn, í víðasta skilningi, oft verið áhrifamikill í bandarískum stjórnmálum, eins og fylgið við Trump sýnir glögglega. En óskandi er að kjósendur muni gera meiri kröfur til hans um rökstuðning og málefnalegan málflutning, heldur en hafa birst í könnunum til þessa. Enginn ætti að komast upp með fordómafullan boðskap, eins og Trump hefur gerst sekur um að undanförnu, og vonandi mun hann ekki gera það þegar upp verður staðið.