Á dögunum var hollensk kona dæmd í ellefu ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness fyrir sinn þátt í fíkniefnamáli. Sú niðurstaða er reyndar með nokkrum ólíkindum, í ljósi þess hvernig málið er vaxið. Dómsniðurstöðunni hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar.
Konan, sem var burðardýr í fíkniefnasmygli, hafði frumkvæði að því að aðstoða við að upplýsa málið, og hjálpaði til við að upplýsa um innflutning á miklu magni fíkniefna. Tálbeitur eru í stórhættu í hlutverkum sem þessum, eins og gefur að skilja. Lögreglan nýtti sér tálbeituna til að upplýsa um málið.
Nú hefur komið í ljós, meðal annars vegna ágætrar blaðamennsku Vísis og eftirfylgni blaðamanns þar, að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og Lögreglan á Suðurnesjum, sem fór með rannsókn málsins, unnu ekki nægilega vel saman í málinu, sem meðal annars leiddi til þess að gripið var til aðgerða á röngum tímapunkti.
Yfirmenn í lögreglunni, Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn, Aldís Hilmarsdóttir, yfirmaður fíkniefnadeildar, og Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, viðurkenna öll að málið hafi ekki farið eins og það átti að fara, og nefna í viðtali við Vísi, að samskiptaerfiðleikar hafi leitt til rangra ákvarðana, en vilja ekki kannast við neitt klúður.
Svo virðist sem þetta ágæta fólk átti sig ekki á alvarleika málsins, því tálbeita lögreglunnar, sem var sett í stórhættu við að upplýsa um stórfellt fíkniefnasmygl, hefur verið dæmd í ellefu ára fangelsi vegna þátttöku sinnar í málinu. Lögreglan bar ábyrgð á því í hvaða stöðu hún var sett, í krafti valdheimilda sinna. Ólafur Helgi Kjartansson, sem æðsti yfirmaður rannsóknar málsins, verður að gera hreint fyrir sínum dyrum í þessu tilviki, því málavextir og niðurstaðan í málinu rýra traust á lögreglunni og grafa undan möguleikum lögreglunnar til þess að nýta þessar aðferðir framvegis. Borgarar sem vilja upplýsa um mál sem þessi geta einfaldlega ekki treyst lögreglunni, ef hún vinnur með fyrrnefndum hætti.
Réttast væri að láta rannsaka þátt lögreglunnar í málinu, velta við hverjum steini, og upplýsa um hvernig málið gat farið eins og það fór. Þá fyrst geta yfirmenn í lögreglunni metið hvort rétt er að nota orðið klúður, og þá almenningur einnig.