Andrea Sóleyjar og Björgvinsdóttir er hugmyndasmiður og höfundur að fyrstu alíslensku bókinni um getnað, meðgöngu, fæðingu & sængurlegu nefnd Bókin okkaR. Aldís Pálsdóttir ljósmyndari sér um myndskreytingar í öllum fjórum köflunum þar sem sérstök áhersla er lögð á íslenska náttúru og sér Hafdís Rúnarsdóttir ljósmóðir um allt fræðilegt efni bókarinnar í framsetningu Andreu. Bókin okkaR óskar þessa dagana eftir styrkjum frá öllum þeim sem geta séð af einhverjum fjármunum og með þeim hætti er hægt að tryggja sér eitt eintak eða fleiri af bókinni þegar hún kemur úr prentun á næsta ári.
1. Um hvað fjallar Bókin okkaR?
Hún er stútfull af staðreyndum og fróðleik um hvað gerist innan í líkama konu í barneignarferlinu en ekki síður, hvað gerist hjá henni sjálfri. Bókin er tímalaust uppfletti-rit, en er jafnframt hispurslaus, skemmtileg, hvetjandi, svalandi og opinská. Auk þess að vera fræðilegt rit um efnið er bókin stútfull af reynslusögum íslenskra kvenna og karla, góðum ráðum og frásögnum af skemmtilegum atvikum sem foreldrar hafa lent í. Það sem gerir bókina líka sérstaka eru frásagnir feðra, sem gleymast oft í ferlinu öllu og að sögurnar spanna þrjár kynslóðir, þ.e segja frá því hvernig margt hefur breyst í þessum efnum í gegnum árin. Bókin okkaR er því einnig heimildarrit.
2. Liggur einhver hugsjón á bakvið bókina?
Andrea fékk hugmyndina að Bókinni okkaR fyrir um tíu árum síðan, þegar hún gekk með elstu stelpuna sína. Hún segist alltaf hafa gert ráð fyrir því að „einhver annar“ myndi skrifa og gefa út svona rit en ekkert gerðist svo hún hófst handa af fullum krafti. Á leiðinni eignaðist hún síðan tvær stúlkur til viðbótar sem, ásamt öðru, varð til þess að útgáfa dróst á langin. „Ég vil státa mig af því að vera að vinna með þessum frábæru konum og þetta er í raun atvinnuskapandi kvennaverk, sem við erum allar stoltar af að vera hluti af.“
3. Hvaðan kemur efniviðurinn?
Frá íslenskum foreldrum koma allar sögurnar sem í bókinni eru en fræðilegt efni bókarinnar er unnið í samvinnu við Hafdísi Rúnarsdóttur, þrautþjálfaðan hjúkrunarfræðing og ljósmóður sem og fleiri ljósmæður.
4. Er eitthvað sem þið viljið sjá að bókin skili út í samfélagið?
Það er engin íslensk bók til um barneignarferlið í heild sinni. Það er komin tími til að rit af þessum gæðum sé gefið út og markmiðið er, ásamt því að fræða og svala fróðleiksþorsta verðandi og verandi foreldra, að skilja lesandann eftir með þá tilfinningu að engin spurning varðandi ferlið sé of vitlaus og að það sem skipti máli sé að konan treysti á sjálfa sig og líkama sinn þegar kemur að því að eignast barn. Ekki skemmir fyrir að myndir Aldísar eru sannarlega til sóma fyrir íslenska náttúru og í raun falleg kynning á Íslandi. Þess vegna er stefnan einnig sett á að gefa bókina út á öðrum tungumálum, kynna fegurð Íslands fyrir heiminum og fylla upp í annars hálftóman markað þegar kemur að bókum um þetta efni. Bókin okkaR er nefnilega einstök því hún er sett fram á hispurslausan hátt og ekkert skafið af því hvað barneignarferlið getur bæði verið frábært og krefjandi. Það er stutt eftir af söfnuninni o og því biðlum við til fólks að fara sem allra fyrst inn á heimasíðu Karolina Fund og leggja sitt að mörkum.
Verkefnið er að finna hér.