Reykjanesbær hefur gengið í gegnum mikla erfiðleika á undanförnum árum og má í raun rekja erfiðleika til þess, þegar herinn fór með skömmum fyrirvara árið 2006. Þá var stoðunum kippt undan atvinnu hjá mörgum í bænum og raunar á Suðurnesjum öllum.
Efnahagshrunið 2008 kom einnig illa niður á Reykjanesbæ og raunar Suðurnesjum öllum.
Þó ekki sjái enn fyrir endann á slæmri rekstrarstöðu Reykjanesbæjar, þá er fullt tilefni til þess að gefa jákvæðum þáttum gaum. Atvinnuástand hefur farið batnandi að undanförnu. Árið 2010 fór atvinnuleysi hæst í 13,1 prósent en það mælist nú 4,1 prósent.
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar sagði í viðtali við RÚV að víða vantaði fólk í vinnu á svæðinu, og öllu léttara væri yfir bæjarbragnum en verið hefur undanfarin ár.
Þetta er jákvætt, og vonandi halda áfram að berast jákvæð tíðindi frá þessu svæði.