Samtök iðnaðarins birtu á vef samtakanna, 18. desember síðastliðinn, umfjöllun þar sem fjallað er sérstaklega um mikilvægi þess að treysta starfsemi sem fellur undir stóriðjuhugtakið margumrædda.
Viðbragð við samningaviðræðum
Greinilegt er á þessum texta sem birtist á vefnum, að Samtök iðnaðarins eru að bregðast umræðu sem nú er í gangi, vegna samningaviðræðna sem Landsvirkjun stendur í gagnvart Century Aluminum, móðurfélagi Norðuráls. Þeir samningar verða endurnýjaðir árið 2019, og er Landsvirkjun nú að freista þess að fá hærra verð fyrir raforkuna sem seld er til álversins á Grundartanga, á meðan Norðurál vill borga eins lágt og það mögulega getur. Eðlilega er tekist á um þessi mál, þó það nú væri.
Á vef Samtaka iðnaðarins, sem eru regnhlífarsamtök 1.200 fyrirtækja hér á landi, er vitnað í orð Almars Guðmundssonar framkvæmdastjóra. Orðrétt segir:
„Hvað raforkumálin varðar hefur Landsvirkjun sagt að markmið fyrirtækisins sé að bjóða ávallt samkeppnishæf kjör á raforku miðað við raforkumarkaði í Evrópu með langtímasamningum, hagstæðu verði og miklu afhendingaröryggi. Ennfremur segja stjórnendur fyrirtækisins að samningar í dag þurfi að endurspegla það umhverfi sem er í dag en ekki eins og það var fyrir 20 árum.
Á árunum 2011-2012 þegar Landsvirkjun markaði núverandi verðstefnu voru algeng verð á erlendum mörkuðum um 50-60 dollarar á megavattstund. Landsvirkjun staðsetti sig vel undir þessum mörkum til að vera samkeppnishæf. Í dag er staðan sú að verð Landsvirkjunar virðast vera óbreytt á meðan verð erlendis eru allt að 50% lægri en þá, þvert á fyrri spár [...] Við höfum einmitt bent á að það verði að horfa til alþjóðlegra raforkumarkaða og samkeppnishæfni okkar í verðum út frá stöðunni í dag. Raforkuverð í Evrópu og víðast hvar í heiminum eru mjög lág um þessar mundir og fátt sem bendir til að þau hækki í bráð. Þau sjónarmið sem réðu ríkjum þegar verðstefna Landsvirkjunar var mótuð fyrir 3-4 árum virðast ekki eiga við núna. Við erum ennfremur að glíma við einn hæsta flutningskostnað á raforku í heiminum og að óbreyttu mun hann hækka verulega[...]Allir hafa hag að því að rekstur Landsvirkjunar gangi vel og að arðsemi fyrirtækisins sé góð. En á sama tíma framleiðir fyrirtækið um 70% af allri raforku í landinu – orku sem er lífæð fjölbreytts iðnaðar og skapar miklar beinar og óbeinar tekjur. Það leggur ríkar skyldur á herðar fyrirtækisins. Undir er samkeppnishæfni orkunýtingar á Íslandi og þá verðum við að líta til þess hvernig orka er verðlögð í samkeppnislöndum okkar.“
Svo mörg voru þau orð, í þessari umfjöllun. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt að Samtök iðnaðarins blandi sér í þessa umræðu, en það er í mörg horn að líta.
Með þessari afstöðu sem þarna birtist eru Samtök iðnaðarins að marka sér stöðu sem samtök stórfyrirtækjanna Rio Tinto, Alcoa og Century Aluminum, sem reka álver hér á landi.
Hærra verð
Íslenskur almenningur á Landsvirkjun, og hefur mikinn hag að því að fá sem mest fyrir raforkuna sem seld er til álveranna, og vonandi tekst Landsvirkjun að fá hátt verð fyrir raforkuna, til langrar framtíðar. Álverin þrjú nýta um 80 prósent raforkunnar í landinu svo það eru miklir hagsmunir í húfi. Landsvirkjun á vitaskuld að hugsa um að fá sem hæst verð, á sama tíma og það verður að hugsa um að hafa viðskiptavini sem eru tilbúnir að borga uppsett verð fyrir raforkuna. Þetta seinna atriði er mikilvægt, enda hefur staða mála breyst frá því samið var við álfyrirtækin í fyrstu, því nú eru fleiri möguleikar í boði fyrir seljandann, Landsvirkjun.
Hafa sloppið við haftabúskapinn
Þessi stórfyrirtæki, sem glíma nú við niðursveiflu í áliðnaði í heiminum, hafa verið með betri varnir gagnvart stöðu mála á Íslandi undanfarin ár heldur en nær öll aðildarfyrirtæki Samtaka iðnaðarins. Þau hafa komið tugum milljarða úr landi á ári, þrátt fyrir fjármagnshöft frá árinu 2008, meðal annars á grundvelli sérstakra ívilnanna sem eru samningsbundnar, og síðan mikilli skuldsetningu dótturfélaga á Íslandi gagnvar móðurfélögum. Það er sanngjarnt að spyrja að því, hvort þetta sé eðlilegt.
Á meðan hefur fólk þurft að sýna farseðla og upplifað skömmtunarkerfi með gjaldeyri. Fyrirtæki, mörg innan Samtaka iðnaðarins, hafa átt í stökustu vandræðum með að halda uppi starfsemi vegna haftanna, og gríðarlega umfangsmikil vinna hefur farið í það árum saman, að reyna að brjótast undan mestu haftahengjunni sem hangið hefur yfir hagkerfinu frá falli bankanna og hruni gjaldmiðilsins. Þetta hefur kostað blóð, svita og tár, auk þess sem stjórnmálamenn hafa þurft að beita öllum ráðum til þess sætta ólík sjónarmið og vinna að farsælli lausn með sérfræðingum. Eins og alkunna er þá tókst þetta, og er það einstaklega jákvætt fyrir almenning á Íslandi. Það verður mikið gleðiefni þegar höftum verður aflétt, þó líklega hverfi þau aldrei alveg.
Þessi stóru alþjóðlegu álfyrirtæki hafa sloppið við að glíma við það sem minni fyrirtæki og almenningur hafa þurft að glíma við.
Síðan kom gengisfall krónunnar sér einkar vel fyrir starfsemi þeirra hér á landi, þar sem launakostnaður mældur í erlendri mynt lækkaði mikið.
Það er því ekki hægt að segja að álfyrirtækin hafi fengið slæma meðferð hjá stjórnvöldum hér á landi á undanförnum árum, síður en svo.
Stóra myndin og almannahagsmunir
Þó mikið sé undir, þegar kemur að því að semja um verð á raforku, við álverin, þá er mikilvægt að málin séu skoðuð vel. Þegar samið er til áratuga, þá er ekki verið að semja um stöðu mála í dag, og einmitt þess vegna þarf að horfa framhjá tímabundnum niðursveiflum og reyna að sjá stóru myndina, og hvaða stöðu hún sýnir. Þar eru óvissuský, en á sama tíma reynir á kænsku og úthald þeirra sem eru að semja. Þeir mega ekki láta kvart og kvein yfir leiðindum dagsins í dag, hafa áhrif á samninga sem eiga að mynda grunn að viðskiptasambandi til áratuga.
Hvers vegna ætli Landsvirkjun vilji fá hærra verð? Það er væntanlega vegna þess að það er mikil eftirspurn eftir raforku fyrirtækisins. Til dæmis hefur komið fram að Bretar eru tilbúnir að kaupa raforku hér á margfalt hærra verði en álverin, og tengja Bretland og Ísland með sæstreng. Samkvæmt raunhæfum útreikningum, sem Landsvirkjun hefur sjálf kynnt og fleiri sérfræðingar sömuleiðis, þá gæti hreinn hagnaður verið nærri 100 milljörðum á ári vegna þeirra viðskipta. Það mætti gera ýmislegt fyrir þá fjármuni, almenningi til heilla og komandi kynslóðum.
Nú þegar hafa Norðmenn markað sér framtíðarstefnu í raforkumálum, sem miðar að því að sala á raforku um sæstrengi verði á einungis tíu árum, jafn vegamikil stoð í orkustefnu Noregs og olíugeirinn. Þeir hafa þegar hrint þessu í framkvæmd, þvert á pólitískar vígalínur og hagsmuni í atvinnulífinu. Þeir eru búnir að þessu, og farnir að vinna.
Norðmenn hafa þegar samið við Breta um lagningu 750 kílómetra sæstrengs, og eru með nokkra sæstrengi til viðbótar á teikniborðinu.
Þetta er einungis nefnt hér sem dæmi um það, hvaða valkostir eru á borði Landsvirkjunar og hvaða hagsmuni fyrirtækið þarf að vega og meta í sínum viðræðum við álfyrirtækin. Og síðan hvernig aðrar þjóðar eru þegar farnar að sjá þessa stóru mynd sem orkugeirinn tilheyrir.
Stóra samhengið
Samtök iðnaðarins mættu alveg huga að þessum atriðum í stærra samhengi en því sem hverfist utan um hagsmuni Rio Tinto, Century Aluminum og Alcoa, og fyrirtækja sem eiga mikið undir starfsemi þeirra á Íslandi.
Þetta eru ríkir hagsmunir, vissulega, en til framtíðar litið þá blikkna þeir í samanburði við almannahagsmunina sem ábyrg nálgun í raforkusölu til framtíðar litið felur í sér. Vonandi hafa Samtök iðnaðarins jafn mikinn áhuga á þeim hagsmunum.