Fjöldi ferðamanna sem heimsækja Ísland hefur farið ört vaxandi á undanförnum árum og allar spár gera ráð fyrir áframhaldandi fjölgun. Gert er ráð fyrir að gjaldeyristekjur vegna ferðamála verði um 1000 milljarðar króna árið 2030 en til samanburðar er áætlað að heildar gjaldeyristekjur Íslands verði 1140 milljarðar króna í ár. Með þessum vexti verða til mörg tækifæri en jafnframt áskoranir. Huga þarf að uppbyggingu innviða og vernd náttúrunnar, sem er að sögn ferðamanna helsta aðdráttarafl landsins.
Velgengni íslensku ferðaþjónustunnar varðar alla Íslendinga. Árlegur fjöldi ferðamanna er margfalt meiri en íbúafjöldi Íslands. Til að standast og fara fram úr væntingum þeirra þurfum við að beita okkur í markaðssetningu, bæta við afþreyingarmöguleika og finna nýjar leiðir til að auka gæði þeirrar þjónustu sem þegar er veitt.
Með það að leiðarljósi hafa Íslandsbanki, Bláa Lónið, Vodafone og Isavia, í samstarfi við Íslenska Ferðaklasann og Klak Innovit, stofnað nýtt samstarfsverkefni sem ber heitið Startup Tourism. Það er tíu vikna viðskiptahraðall þar sem allt að tíu sérvalin sprotafyrirtæki í ferðaþjónustu fá tækifæri til að þróa viðskiptahugmyndir undir leiðsögn sérfræðinga. Þátttakendur fá aðgang að fullbúinni vinnuaðstöðu á meðan á hraðlinum stendur og einkafundi með fjölda sérfræðinga, þar á meðal fjárfesta og reyndra frumkvöðla. Auk þess stendur þeim til boða þjálfun og fræðsla á ýmsum sviðum sem er til þess fallin að hraða þróun viðskiptahugmynda og um leið gefst fjöldi tækifæra til tengslamyndunar sem hefur reynst dýrmætt veganesti fyrir ný fyrirtæki.
Hraðallinn hefst 1. febrúar 2016 og fer fram í Reykjavík. Opið er fyrir umsóknir til 6. janúar 2016 á vefsíðunni startuptourism.is. Þátttaka í viðskiptahraðlinum er án endurgjalds og ekki er tekinn eignarhlutur í þeim fyrirtækjum sem taka þátt í hraðlinum.
Nú er rétti tíminn til að taka þátt í mótun íslensku ferðaþjónustunnar, til að tryggja framtíðar gjaldeyristekjur, atvinnutækifæri og jákvætt orðspor þjóðarinnar.