Páll Magnússon fjölmiðlamaður, fyrrverandi útvarpsstjóri og blaðamaður til áratuga, fór mikinn á dögunum, í viðtali á Bylgjunni í þættinum Sprengisandi. Þar sagði hann fólk á þingi vera upp til hópa vanhæft og „lélegt“. Sagði hann meðal annars að svo virtist sem stjórnmálaflokkum væri ekki að takast að laða að sér hæfileikaríkt fólk.
Nú skal ekkert lagt mat á þetta hjá Páli, og eflaust margir sem taka undir þetta, enda auðvelt að horfa úr fjalægð á stjórnmálamenn og finna þeim allt til forráttu.
En það má líka nefna aðra hluti sem benda til þess að stjórnmálamönnum hafi tekist að taka réttar ákvarðanir á lykilaugnablikum.
Á síðustu sjö árum, frá því að bankakerfið hrundi eins og spilaborg og fjármagnshöftum var komið á til að vernda íslenskan almenning fyrir stjórnlausu gengisfalli krónunnar, þá var staðan vægast sagt krefjandi.
Þrátt fyrir heiftug átök stjórnmálamanna þá tókst að koma saman áætlun, í samstarfi við sérfræðinga og vinna eftir henni. Það var áætlun sem byggði á lánafyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) og fleiri ríkja, og vinnu sérfræðinga, innlendra og erlendra, í samstarfi við stjórnvöld.
Á árinu sem lýkur senn var lán AGS endurgreitt að fullu, og áætluninni lauk þannig formlega. Árangurinn er augljós.
Endurreist bankakerfi sem fjármagnað er nær eingöngu með innlánum almennings, opinberar skuldir á hraðri niðurleið og stór skref hafa verið stigin til að losa um höft. Alveg eins og í tilfellinu þegar búin var til áætlun í samstarfi við AGS, þá byggir áætlunin um losun hafta á samstarfi við sérfræðinga, innlenda og erlenda. Árangurinn hefur náðst fram með því að bera virðingu fyrir sérfræðiþekkingunni og leyfa henni að leiða fram bestu niðurstöðuna. Þetta hefðu margir af þeim þingmönnum, sem nú eru hættir á þingi, mátt tileinka sér í meira mæli. Þá hefðu hugsanlega gagnrýnisraddir á stöðu mála fyrir hrun fjármálakerfisins fengið að heyrast á réttum stöðum.
Árangurinn í stjórnmálastarfinu eftir hrunið er augljós, og það er þvert á flokkslínur og þrátt fyrir fordæmalausar illdeilur þingmanna og átök innan stjórnmálaflokka. Megi stjórnmálamenn halda áfram að vinna að lausn mála með færustu sérfræðingum, þegar þess þarf. Sem er kannski mun oftar en stjórnmálamenn gera sér grein fyrir.