Kjararáð, sem skipað er Jónasi Þór Guðmundssyni, Svanhildi Kaaber og Huldu Árnadóttur, ákvað 17. desember síðastliðinn að hækka laun bankastjóra Landsbankans, Steinþórs Pálssonar, langt umfram þær hækkanir sem aðrar stéttir í landinu hafa fengið fram í kjarasamningum að undanförnu. Hækkunin er um 20 prósent í einu skrefi, en frá því um mitt ár í fyrra hafa launin hækkað um 36 prósent. Steinþór fær nú 1.950 þúsund á mánuði.
Fram kemur í úrskurði kjararáðs að bankaráð Landsbankans hafi barist fyrir því að laun Steinþórs yrðu hækkuð, vegna þess að hann beri mikla ábyrgð og sé að vinna mikið. Hann eigi einfaldlega skilið að fá hærri laun.
Í þessu er rétt að horfa framhjá því, að eflaust hefur Steinþór staðið sig vel, og það eru mörg rök sem telja má til í þeim efnum. Helst þó að rekstur Landsbankans er orðinn stöðugur, og efnahagsreikningurinn sömuleiðis, eftir mikið endurreisnarstarf frá hruni, sem Steinþór hefur leitt undanfarin ár.
En margt það fólk sem kjararáð ákvarðar launin hjá hefur einnig nóg að gera, ber mikla ábyrgð og hefur staðið sig vel í starfi.
Steinþór er ríkisstarfsmaður eins og allir starfsmenn Landsbankans, enda á ríkið Landsbankann, að 98,2 prósent leyti. Þess vegna er kjararáð að ákvarða launin hans. Það er óskiljanlegt, að kjararáð meti það sem svo, að nú sé tímabært að hækka launin hjá þessum tiltekna starfsmanni langt umfram alla aðra. Rökin fyrir hækkuninni eru engin umfram þau, sem einnig má tiltaka hjá hinum ýmsu sérfræðingum og starfsmönnum, sem kjararáð ákvarðar launin hjá.
Kjarasamningarnir sem gerðir hafa verið að undanförnu, hafa þótt glannalegir, að mati Seðlabanka Íslands, þar sem umsamdar hækkanir eru langt umfram framleiðniaukningu í hagkerfinu í sögulegu tilliti. Svona skilaboð, eins og kjararáð er að senda með þessari hækkun fyrir bankastjóra ríkisbankans, er ekki það besta sem fram gat komið á þessum tímapunkti, svo ekki sé fastar að orði kveðið.