Oft hefur verið deilt um verkefni hjálparsveita landsins. Verkefni þeirra eru mörg og flestir hafa skoðanir á því hvort að hjálparsveitirnar eigi að sinna sumum þessara verkefna. Nú í lok ársis 2015 kom upp umdeilt verkefni þar sem ungir breskir menn reyndu að ganga yfir hálendið um miðjan vetur. Skiljanlega eru þeir sóttir ef þeir eru í vanda staddir þrátt fyrir að þeir hafi verið varaðir við og beðnir um að fara ekki. Það er hinsvegar orðið illskiljanlegt þegar þeir reyna í þriðja sinn og eru sóttir með þyrlu.
Mörgum þykir það fáránlegt að hjálpasveitirnar séu misnotaðar með þessum hætti af mönnum sem leggja í ferð sem búið er að vara við margsinnis. Eðlilega heyrist ekkert frá forsvarsmönnum hjálparsveitanna um þetta mál enda eru þeir ekkert að barma sér yfir því að bjarga fólki og líta á það sem skyldu sína að gera það. En við sem reynum að styrkja þessa starfsemi með ýmsum hætti finnst peningum okkar illa varið við björgunaraðgerðir af þessu tagi. Nóg er af verkefnum sem eru brýnni, eins og þegar veður gerast válynd. Þá eru björgunarmenn mættir og margir í sjálfboðaliðastarfi til þess að bjarga því sem bjargað verður. Það er því skiljanlegt að verða hugsi yfir því að einhver leyfi sér að misnota þessa mikilvægu starfsemi eins og ungu Bretarnir gerðu í þrígang.
Það er víðtæk skoðun okkar flestra Íslendinga að þessi starfsemi sé nauðsynleg fyrir land og þjóð. Þess vegna er brýnt að gera tilraunir til þess að koma í veg fyrir að hún sé misnotuð. Ein leið gæti verið sú að íslenska ríkið stofni tryggingasjóð slysavarna og við íbúar þessa lands greiði í þennan sjóð t.d. 1000 kr. hver og sé þessi greiðsla partur af skattframtalinu okkar.
Allir Íslendingar greiddu þannig sitt tryggingargjald og rynni það óskipt til björgunarsveitanna. Þannig værum við sem greiðum skatta á Íslandi tryggð og getum áfram óskað eftir aðstoð hjálparsveitanna í neyð. Aðrir sem á henni þurfa að halda greiði fullt gjald fyrir aðstoð björgunarsveita með eigin fjármunum eða bjóðist að kaupa tryggingar hjá tryggingarfélögum ef þau bjóða upp á slíkar tryggingar. Þannig getum við komið í veg fyrir að slík misnotkun á björgunarsveitum landsins eigi sér stað af því tagi sem við horfðum upp á hjá hinum ungu ofurhugum frá Bretlandi.