Forsetakosningarnar sem eru framundan, eru um margt óvenjulegar, eins og Björg Thorarensen, lagaprófessor, benti á í viðtali við RÚV. Því miður, sé horft á málin úr frá lýðræðislegu sjónarhorni, þá liggur ekkert fyrir um það að nýr forseti verði kjörinn með meirihluta atkvæða á bak við sig, eða yfir höfuð afgerandi stuðningi.
Annað sem hlýtur að valda þeim, sem hafa þegar lýst yfir framboði til forseta eða hafa hug á því, er hversu stuttur tími er til stefnu til að móta sýn á forsetaembættið og kynna það fyrir þjóðinni. Kosningarnar eru 25. júní og rúmum mánuði fyrr, þarf stuðningur við frambjóðendur, samkvæmt lágmarkskröfum, að liggja fyrir.
Lágmarkskröfur um stuðning við frambjóðendur, eins og Björg benti á viðtali við RÚV. „Það er afskaplega einfalt að bjóða sig fram. Það eru lágir þröskuldar, 1.500 meðmælendur. Árið 1944 voru 75 þúsund á kjörskrá. Núna eru 235 þúsund á kjörskrá og þetta lágmark er enn óbreytt,“ sagði Björg.
Af þessum sökum gæti þessi stutti tími fram að kosningum orðið að mikilli rússíbanareið og pólitísku spretthlaupi, þar sem frambjóðendur, einkum þeir sem eru lítið þekktir, eiga erfitt með að kynna sín sjónarmið fyrir þjóðinni.
Ljóst er að krefjandi kosningabarátta er fyrir hendi, hjá frambjóðendum, og á sama tíma verður hún óvenjuleg fyrir þjóðina.