Á vef mbl.is var á dögunum greint frá því, að 28 hrunmál væru enn til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara, nú rúmlega sjö árum eftir fall bankanna. Töluvert er í að öll kurl verði komin til grafar í þessu uppgjöri við hrunið fyrir dómstólunum, en allir forstjórar föllnu bankanna þriggja, Glitnis, Landsbankans og Kaupþings, hafa nú fengið fangelsisdóma fyrir lögbrot. Einn er reyndar undanskilinn í þessari upptalningu, og það er Halldór J. Kristjánsson, sem var bankastjóri Landsbankans ásamt Sigurjóni Þ. Árnasyni, en sá síðarnefndi var dæmdur til fangelsisvistar í ÍMON-málinu svokallaða, en þar var Halldór ekki meðal ákærðu.
Þá hefur Hæstiréttur ekki dæmt Lárus Welding, fyrrverandi forstjóra Glitnis, sekan þar sem Stím-málið svonefnda, þar sem Lárus var dæmdur til fimm ára fangelsisvistar í héraði, hefur ekki enn verið tekið fyrir í Hæstarétti. Lárus hafði áður verið sýknaður í Hæstarétti í Vafnings-málinu.
Eins og áður segir, þá eru mörg mál til meðferðar fyrir dómstólum og fleiri á leiðinni þangað, að öllum líkindum. Svo erfitt er að segja til um hvernig staðan verður þegar upp er staðið.
Það er ekki að heyra á þeim bankamönnum og fjárfestum, sem hafa verið að tjá sig um glæpi sína sem Hæstiréttur hefur staðfest með dómum, að þeir sjái eftir neinu, eða hafi auðmjúklega horfst í augu við gjörðir sínar.
Jafnvel þrátt fyrir að dómstólar hafi dæmt suma ítrekað seka um stórfellda og fordæmalausa efnahagsbrotaglæpi, þá hafa þeir séð ástæðu til að hafna alltaf öllum ásökunum - þó dómar séu þegar fallnir - og jafnvel fara með ávirðingar gagnvart saksóknurum og dómsvaldinu.
Ólafur Ólafsson, eigandi Samskipa til margra ára, hélt því fram í viðtali við Viðskiptablaðið að það hefði verið áfall fyrir hann að „upplifa rangan dóm“. Það var eftir að átta dómarar í héraði og Hæstarétti höfðu komist að þeirri niðurstöðu að hann væri sekur um alvarlegt lögbrot í hinu svokallaða Al-Thani máli. Þá var málið búið að vera til meðferðar árum saman og farið alla leið í réttarvörslu- og dómskerfinu.
Bankamenn og fjárfestar sem hafa verið dæmdir fyrir efnahagsbrotaglæpi, ættu að hafa það hugfast, að Íslendingar átta sig vafalítið flestir á því, að stjórnvöld - bæði stjórnmálamenn og eftirlitsstofnanir - bera ríka ábyrgð á því að þær aðstæður sem sköpuðust á Íslandi, sem að lokum enduðu með allsherjarhruni og fjármagnshöftum, urðu að veruleika. En það fríar bankamenn og fjárfesta alls engri ábyrgð, ef það er mat sérfræðinga að lög hafi verið brotin. Þá ber að fara með málin í gegnum dómskerfið, til þess að komandi kynslóðir geti lært af því sem aflaga fór.
Og Íslendingar eru eflaust einnig tilbúnir að fyrirgefa og gefa fólki annað tækifæri, þegar refsing hefur verið tekin út. Það er hinn eðlilegi farvegur réttarkerfisins, og nauðsynlegt að samfélagið búi þannig um hnútana að fólk fái annað tækifæri. En slíkt verður óneitanlega erfiðara, ef enginn þeirra sem hefur hlotið dóm, jafnvel endurtekið, sýnir vott af iðrun eða viðurkenningu á því að nokkuð rangt hafi verið gert er tengist hruni fjármálakerfisins.
Það væri góð og mikilvæg byrjun hjá þeim sem hafa hlotið dóm, að horfast í augu við það sem gerðist, gagnrýnið, og hætta að tala niður til þeirra sem hafa það vandasama verkefni í samfélaginu, að leiða mál er tengjast allsherjarhruni fjármálakerfisins til lykta fyrir dómstólum.