Pólland er mikil vinaþjóð Íslands en tæplega tíu þúsund Pólverjar eru búsettir hér á landi. Skemmst er að minnast þess þegar Pólverjar réttu Íslendingum hjálparhönd í neyð, með lánveitingu þegar fjármálakerfið hrundi. Margar aðrar þjóðir lokuðu þá á Ísland.
Í gær bárust ískyggilegar fréttir frá Póllandi þar sem stjórnvöld þar í landi lögfestu pólitíska ritskoðun á ríkisútvarpi og ríkissjónvarpi landsins. Andrzej Duda, forseti Póllands, staðfesti lögin en skorað hafði verið á hann að gera það ekki.
Samkvæmt lögunum hefur fjármálaráðherra Póllands heimild til þess að ráða og reka yfirmenn ríkisfjölmiðilsins, sem verður að teljast með nokkrum ólíkindum og hindra að sjálfstæð ritstjórnarstefna getið verið leiðarstef í blaðmennskunni.
Alþjóðasamtök blaðamanna, IFJ, hafa mótmælt lögunum harðlega, og sagt þau ganga freklega gegn frelsi fjölmiðla og sjálfstæði ritstjórna ríkisfjölmiðla.
Þetta dæmi sýnir hversu mikilvægt það er, að hindra með öllu bein afskipti stjórnmálamanna af ríkisfjölmiðlum. Það getur verið hættulegt lýðræðislegri umræðu þegar slíkt gerist. Vonandi fella Pólverjar þessi lög úr gidi, sem allra fyrst.