Ísland á eftir að breytast mikið á næstu árum, og umbreytast tiltölulega hratt í alþjóðlegt samfélag þar sem innflytjendur verða um fimmtungur þjóðarinnar. Fyrirsjáanlegt er að um tvö til þrjú þúsund útlendingar þurfi að koma til Íslands á ári til að vinna, vegna þess að skortur er á vinnuafli.
Þetta kom fram í máli framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins í gær, Þorsteins Víglundssonar.
Á sama tíma er öldruðum að fjölga ört, sem kallar á endurskoðun heilbrigðiskerfisins og lífeyriskerfisins sömuleiðis.
Þessi mál eru um margt merkileg þegar horft er til þróunar mála á Íslandi, í náinni framtíð. Stjórnmálin þurfa að þróast með og samfélagið sömuleiðis. Hvernig ætlum við að takast á þessar áskoranir? Vonandi verða spurningar um þessi mál hluti af stjórnmálaumræðunni fyrir forsetakosningar í sumar, og síðan fyrir Alþingiskosningarnar ári síðar. Það er full þörf á því.