Talsverðar umræður hafa spunnist á síðustu dögum um kosningakerfið sem beitt er í forsetakosningum. Á Íslandi er forsetinn kosinn með einföldum meirihluta (e. plurality) í einni umferð, sem felur það í sér að sá frambjóðandi sem fær flest atkvæði er kjörinn forseti, óháð því hvort um hreinan meirihluta atkvæða er að ræða. Nú þegar stefnir í að metfjöldi einstaklinga bjóði fram krafta sína eru uppi áhyggjur um að atkvæðin dreifist með slíkum hætti að lítið hlutfall atkvæða dugi til sigurs – jafnvel einungis 10% atkvæða. Þó að ólíklegt sé að svo lágt hlutfall muni duga til sigurs þegar á hólminn er komið, eru áhyggjurnar réttmætar og eðlilegt að velta fyrir sér hvort hægt sé að kjósa forseta með annarri og betri aðferð. Í því samhengi getur verið gagnlegt að skoða hvernig önnur lönd heimsins haga almennum forsetakosningum (í nokkrum löndum, t.d. Eistlandi, er forseti kjörinn af þjóðþingi fremur en almenningi – ekki er fjallað um slík tilfelli hér að neðan).
Í gegnum árin hefur talsverður fjöldi landa kosið forseta með einföldum meirihluta, líkt og á Íslandi. Um miðbik síðustu aldar var kerfið til dæmis notað í yfir helmingi allra forsetakosninga, en talsvert hefur hins vegar dregið úr notkun þess á síðari árum. Er nú svo komið að einungis um 12 lönd sem kjósa forseta almennri kosningu beita þessu kerfi. Ásamt Íslandi eru það einkum lönd í Mið-Ameríku og Asíu sem beita kerfinu, meðal annars Kosta Ríka og Suður-Kórea.
Í praxís er meirihlutakosning (e. absolute majority) í tveimur umferðum nú orðin útbreiddasta leiðin sem lýðræðisríki beita til að kjósa forseta. Fái enginn frambjóðandi hreinan meirihluta atkvæða í fyrstu umferð í slíku kerfi fer fram önnur umferð þar sem kosið er á milli þeirra tveggja frambjóðenda sem flest atkvæði hlutu í fyrstu umferðinni. Sigurvegari seinni umferðarinnar er svo kjörinn forseti. Meðal annars er stuðst við kerfið í Frakklandi, Finnlandi, Austurríki og Portúgal, en einnig er það algengt í Austur-Evrópu og Afríku.
Þó að kerfið tryggi að nafninu til meirihlutastuðning við einn frambjóðanda getur það þó leitt til öfugsnúinna niðurstaðna. Frægasta tilfellið af slíku er sennilega þegar öfgamaðurinn Jean-Marie Le Pen komst naumlega í aðra umferð forsetakosninganna í Frakklandi 2002, en þar atti hann kappi við hægri manninn Jacques Chirac. Chirac hlaut yfirburðarkosningu enda fylktu allir nema harðir stuðningsmenn Le Pen sér að baki Chirac, meðal annars pólitískir andstæðingar. Chirac hlaut því vissulega stuðning meirihluta kjósenda, en velta má fyrir sér að hve miklu leyti það var vegna ánægju með frambjóðandann sjálfan eða ótta við mótframbjóðandann.
Þremur öðrum útfærslum af kosningakerfum hefur verið beitt við forsetakosningar á undanförnum áratugum, en þau eru umtalsvert sjaldgæfari en bæði kerfi einfalds meirihluta og meirihlutakosning í tveimur umferðum. Það fyrsta af þessum þremur er kerfi sem mætti kalla kerfi fullnægjandi meirihluta (e. qualified majority). Það er keimlíkt meirihlutakosningu í tveimur umferðum, nema hvað miðað er við annan þröskuld en 50% í fyrstu umferðinni. Einungis fimm lönd styðjast við slíkt kerfi í dag. Annað af þessum kerfum er kjörmannakerfi (e. electoral college), þar sem almenningur kýs kjörmenn sem svo kjósa forsetann. Einungis er stuðst við slíkt kerfi í Bandaríkjunum í dag. Að síðustu er kerfi varaatkvæða (e. alternative vote). Í slíku kerfi kjósa kjósendur einn aðalframbjóðanda, en geta einnig kosið aðra frambjóðendur til vara. Ef aðalframbjóðandinn á ekki möguleika á að sigra kosningarnar nýtast varaatkvæðin því öðrum frambjóðendum. Slíkt kerfi er einungis í notkun á Írlandi og í Sri Lanka, en útfærslan er ekki sú sama í löndunum tveimur.
Myndin hér að neðan dregur ágætlega fram hvernig vinsældir ólíkra kosningakerfa hafa þróast frá 1946 (gögnin eru fengin frá Bormann og Golder, 2013). Talsvert hefur dregið úr útbreiðslu kerfi einfalds meirihluta, en á móti hefur meirihlutakosningu í tveimur umferðum vaxið ásmegin. Þannig var því kerfi beitt í tæplega 70% almennra forsetakosninga frá 1995 til 2011. Hin þrjú kerfin eru mun sjaldgæfari.
Þó að einungis fimm tegundir kosningakerfa hafa verið nýtt við almennar forsetakosningar eru þó aðrar aðferðir sem koma einnig til greina. Ein aðferð sem hefur hlotið allmikla athygli fræðimanna er samþykktarkosning (e. approval voting), en í slíkri kosningu merkja kjósendur við alla þá frambjóðendur sem þeir samþykkja eða treysta til að gegna embætti forseta. Þar sem sá frambjóðandi sem nýtur víðtækasts stuðnings sigrar kosninguna er því gjarnan haldið á lofti að slíkt kerfi sé einkar vel til þess fallið að kjósa frambjóðanda sem höfðar til sem flestra – einhvers sem mætti jafnvel kalla „sameiningartákn“ þjóðar.
Ekki skal fjölyrða um hvert kerfanna hér að ofan er best til þess fallið til að velja forseta. Það er hins vegar ljóst að það kerfi sem beitt er á Íslandi er á undanhaldi um allan heim – og af góðri ástæðu. Þó að kerfið sé einkar auðvelt í framkvæmd, þá getur það orðið til þess að forseti verði kjörinn með afar lágt atkvæðamagn á bakvið sig og njóti því ekki víðtæks trausts í samfélaginu.
Full ástæða er til að endurskoða kosningakerfið sem beitt er til að kjósa forseta Íslands. Við slíka vinnu er einkar mikilvægt að líta til reynslu annarra landa af ólíkum kosningakerfum, en ekki síður leitast við að velja kosningakerfi sem skilar niðurstöðu sem er líklegust til að endurspegla vilja sem flestra kjósenda. Til þess er jú leikurinn gerður.
Frekari upplýsingar:
Gagnasafn Bormann og Golder og fræðilegt yfirlit: http://mattgolder.com/elections
Nánari upplýsingar á íslensku: http://www.forseti.politicaldata.org/kosningaadferdir