„Nei,“ svaraði maðurinn með þjósti og bætti við:„Það er eitthvað sem viðgengst í íslömskum klerkaveldum eins og Íran en ekki hér.“ „Já, býst við að það sé rétt hjá þér“ svaraði ég en þó með smá semingi og bætti við: „Við erum þó undir þrýstingi frá Agnesi biskup að velja aðeins kristinn forseta úr röðum þjóðkirkjufélaga og minnir á að forsetinn sé vígður til embættis í Dómkirkjunni. Hún sagði þetta fyrir forsetakosningarnar árið 2012 og aftur núna.“
„Hmm..“ maðurinn hugsaði sig um og virtist í fyrstu smá hissa, en það rann svo af honum: „En svona hefur þetta alltaf verið og er það ekki bara í góðu lagi? Það þýðir ekki að trúarforkólfar ráði hér einhverju sem skiptir máli!“
Ég varð hugsi. Voru áhyggjur mínar bara óþarfar? Því skyldi maður vera að ergja sig á hefðum sem hafa gengið friðsamlega fyrir sig frá því að lýðveldið var stofnað? Er maður kannski orðinn of var um sig eftir öll hneykslismálin í Þjóðkirkjunni? Nei, þetta gengur bara ekki upp í réttlátu samfélagi.
„Heyrðu,... mér finnst þetta samt ekki rétt - þó að við búum ekki við klerkaveldi,“ svaraði ég loksins.
„Við eigum enn í baráttu við trúarleg afturhaldsöfl sem lýsa því yfir með framkomu sinni og gerðum að við Íslendingar séum ekki allir jafnir!“ Viðmælanda mínum fannst þó fátt til þessara orða koma og svaraði: „Þetta hefur nú aldrei skaðað mig neitt og sama er mér hvað einhver biskup segir,“ og þar með var hann rokinn burt.
Hvað ef viðmælandi minn væri ásatrúar og vildi einn daginn verða frambjóðandi til forseta? Þætti honum þá orð biskups skaðleg?
Vissulega er Ísland ekki trúræðisríki sem slíkt en leifarnar af hinu geistlega valdi miðalda eru enn til staðar og fá forréttindastöðu sem ríkisvaldinu (og þar með forsetanum) er ætlað að vernda samkvæmt stjórnarskránni sjálfri. Þá situr eftir spurningin sem maðurinn ýjaði að. Skiptir það einhverju máli?
Augljóslega skiptir þetta biskupinn og Þjóðkirkjuna miklu máli því að missi hin evangelíska lúterska stórkirkja (til eru aðrar hérlendis) stöðu sína sem þjóðkirkja, missir hún milljarðana sem hún fær frá ríkinu. Hún missir einnig alla upphefðarbitana eins og að messa yfir þingmönnum og forseta við setningu Alþingis hvert ár og að „krýna“ forsetann með hátíðlegri vígsluathöfn í Dómkirkjunni. Þessir forréttindabitar eru bara fáir af mörgum sem hún myndi missa. Hún yrði ekki lengur „aðal aðal“ heldur bara rétt eins og hinir, úrköstin sem eru utan hennar og eru nú 28% þjóðarinnar.
Þessi orð biskups ganga þvert á réttlætiskennd manns og undirstöðugildi lýðræðis, því sem ég held að langflestir landsmenn kunni að meta; frelsi, jöfn tækifæri og að „[A]llir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti,“ eins og segir í 65. grein stjórnarskrár Íslands. Réttlátt fyrirkomulag lýðræðis krefst þess að réttindi okkar (t.d. til að bjóða okkur fram til embætta) séu veitt undir fávísisfeldi eins og einn þekktasti kennismiður 20. aldarinnar á sviði félagslegs réttlætis, John Rawls, orðaði það.
Agnes biskup vegur að þessum grundvallarréttindum okkar, þegar hún leyfir sér að draga forsetaframbjóðendur í dilka eftir því hvort að það er kristið þjóðkirkjufólk eða ekki. Þetta er í senn ólýðræðislegt og mannfjandsamlegt. Í þessum árekstri höfuðs forréttindatrúfélagsins Þjóðkirkjunnar, við einn mikilvægasta kjarna lýðræðisins sem réttlætissamfélag, kristallast óréttmæti og tímaskekkja þess að þjóðkirkjuskipan sé enn við lýði. Valdastaða Þjóðkirkjunnar byggir á yfirgangssemi og hroka þessa trúfélags og forvera þess rómversk-kaþólsku kirkjunnar í rúmlega ellefu aldir.
Það er sorglegt að biskupinn getur þó réttlætt þennan yfirgang með því að vísa í 62. grein stjórnarskrárinnar um að kirkjan hennar skuli vera þjóðkirkja á Íslandi. Agnes biskup leyfir sér því að lýsa vanþóknun sinni á utanfélagsfólki við Þjóðkirkjuna sem mögulega frambjóðendur til forseta. Ef til vill meinar hún það ekki persónulega en það verður það óhjákvæmilega því að sérréttindastaða Þjóðkirkjunnar er útilokandi á aðra og það kemur persónulega niður á fólki. Hún sér ekki fyrir sér að „vígja“ ókristinn forseta og það væri skiljanlegt í trúræðisríki þar sem reglum lýðræðis um mannréttindi væru ekki áhyggjuefni yfirvalda.
Í lýðræði á forseti ekki að hafa opinbert hlutverk með trúarleiðtoga og trúarleg embættisvígsla er tákn trúræðis, þar sem valdið var talið koma frá guði til hins vígða. Ólíkt öðrum stofnunum ríkisins þar sem fyllstu óhlutdrægni er krafist er biskup þessum orðum sínum ekki klæddur „fávísisfeldinum“ góða heldur „skrúðkufli“ sértrúar sem hefur ekkert með lýðræði og réttlátt samfélag að gera. Ég segi „sértrúar“ því að með þessu er biskup genginn á skjön mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar og 64. greinina sem segir; „Enginn má neins missa í borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna“ og ákvæði 63. greinarinnar um trúfélög þar sem segir „[...] ekki [má] kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu“.
Það er „allsherjarregla“ að hafa þau borgaralegu réttindi að mega bjóða sig fram til forseta eða annarra opinberra embætta. Agnes getur haft sína einkaskoðun á því hvaða fólk hún teldi best falið til embættis forseta, en sem orð úr munni biskups (sem enn hefur opinberu hlutverki að gegna) hafa þessi orð allt annað vægi og vega að frelsi fólks til þátttöku og ýja að því að forseti utan Þjóðkirkjunnar yrði henni til óánægju eða erfiðleika.
Lítum aðeins á forsetaembættið sjálft. Forseti, óháð persónulegri stöðu sinnar innan eða utan Þjóðkirkjunnar og allra trú- og lífsskoðunarfélaga, hefur þá skyldu að starfa líkt og hann væri undir „fávísisfeldi“ og þannig blindur á þá „merkimiða“ sem fólk hengir á sig eða hefur fengið hengda á sig af öðrum. Hann/hún dregur ekki í dilka. Réttsýnn og lýðræðislegur forseti gætir þess vandlega að koma jafnt fram við alla borgara Íslands. Það þýddi að hann myndi halda í heiðri 64. og 65. greinar stjórnarskrárinnar og sleppa því að hygla sérréttindum líkt og þjóðkirkjuákvæðið (62. grein) fer fram á gagnvart „ríkisvaldinu“.
Á meðan þjóðkirkjuákvæðið er í gildi er nóg „verndun“ að ríkið styðji Þjóðkirkjuna með núverandi fjárframlögum. Það er hvergi í lögum eða reglugerðum að forsetanum, ráðherrum eða alþingismönnum beri að taka þátt í bænahaldi, vígslum og skrúðgöngum Þjóðkirkjunnar og það er satt að segja verulegur trúræðisbragur á því að forsetinn sé vígður kirkjulega. Út frá sjónarhóli lýðræðis og réttlætis eru „allsherjarreglur“ 64. og 65. greinanna um mannréttindi og banni við mismunum, öðrum greinum mikilvægari. Á herðum þessara greina hvílir það þjóðfélag frelsis, velferðar, réttlætis og farsældar sem við höfum keypt dýrum dómum frá tímum Upplýsingarinnar og er okkur svo dýrmætt. Án þeirra ættum við okkur ekki sjálf og lægjum enn á hnjánum sem kúguð þjóð ósjálfstæðra fátæklinga sem fengi úthlutað „réttlæti“ eftir duttlungum klerka og konunga.
Höfundur er læknir og nemi í heimspeki við HÍ.