Siðmennt hefur látið fyrirtækið Maskínu framkvæma könnun um lífsskoðanir Íslendinga. Svarendur voru 821 manns og vigtuð með tillit til kyns, aldurs og búsetu. Helstu niðurstöður hennar staðfesta að veraldarhyggja (e. secularism) stendur sterkum fótum í íslensku samfélagi. Trú og stuðningur við Þjóðkirkjuna hefur farið hratt minnkandi á síðustu 20 árum. Hér skal í örstuttu máli reynt að gera grein fyrir helstu niðurstöðum.
Minnihluti þjóðarinnar trúaður!
Árið 1996 voru 87% þjóðarinnar trúuð en í dag eru þeir 46%. Þeir sem eru trúlausir eða gefa ekki upp trú eru 54% þjóðarinnar. Þetta er í fyrsta skipti sem kannanir sýna að minnihluti þjóðarinnar sé trúuð. Einnig kemur í ljós að 36% trúa helstu kenningum kirkjunnar um guð, eilíft líf og upprisuna. Í yngsta aldurshópnum eru yfir 80% sem eru trúlaus eða telja enga vissu fyrir tilvist guðs. Fjórðungur þjóðarinnar eiga samleið með Þjóðkirkjunni samkvæmt könnuninni.
Við spurningunni um þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskrá telja yfir 61% af þeim sem taka afstöðu að það eigi ekki að vera. Spurningin er sett fram með hlutlausari hætti en gert var í þjóðaratkvæðagreiðslunni árið 2012.
Sýndarveruleiki skráninga í trúfélög
Niðurstöður stangast á við þann sýndarveruleika sem er við skráningu fólks í trú- og lífsskoðunarfélög. Sjálfkrafa skráning hvítvoðunga fram til 2013 hefur skapað þá blekkingu að „við séum kristin þjóð“, „allir eru í kirkjunni“ og að „meirihlutinn tilheyri kristnum söfnuðum“. Sú breyting varð á skráningu barna árið 2013 að nú þurfa báðir foreldrar að tilheyra sama trú- og lífsskoðunarfélagi til að barnið sé skráð í félag, annars skráist barnið utan trúfélaga.
60% vilja breytingu á fyrirkomulagi skráningu barna í trúfélög, t.d. að foreldrar skrái börn sín eða þau geri það sjálf síðar á ævinni þegar þau hafa aldur og þroska til.
Þessi blekking og skekkja hefur leitt til þess að ýmsar ólýðræðislegar hugmyndir og kröfur hafa verið settar fram. T.d. að í krafti „meirihlutans“ eigi börn að læra kristinfræði í stað trúarbragðafræði. Krafist hefur verið óhefts aðgangs presta Þjóðkirkjunnar að leik- og grunnskólum til þess að veiða sálir auk annars trúboðs með dreifingu á efni. Jafnvel kirkjuferðir á aðventu eru rökstuddar með þessum „staðreyndum“.
Íslendingar vilja veraldlegt samfélag
Könnunin staðfestir enn eina ferðina að þjóðin vill aðskilnað ríkis og kirkju en 72% þeirra sem taka afstöðu eru þeirrar skoðunar. Reynt er að afvegaleiða umræðuna með frösum eins og „hvað þýðir eiginlega þessi spurning?“. Svarið er einfalt í hugum fólks. Þjóðin er búin að aðskilja sig frá kirkjunni. Það vantar bara formlegu ákvörðunina.
Það kemur fram að 46% telja að ríkið eigi EKKI að annast skráningu á trú- eða lífsskoðun fólks, hvað þá að skattborgarar eigi að borga milljarða til þessara félaga í stað þess að þau innheimti tíund eða einfaldlega félagsgjöld. Samtals telja 60% að breyta þurfi kerfinu en 40% styðja óbreytt kerfi þar sem fjárhagsleg mismunun er innbyggð í það.
Talandi um skóla og trúboð kirkjunnar þá er afstaða Íslendinga afar skýr. 69% sem taka afstöðu telja að skólar eigi að halda trúarlegu hlutleysi.
Yfir 91% Íslendinga styðja líknandi dauða
Í lokaspurningu könnunarinnar er spurt: „Ertu hlynntur eða andvígur því að einstaklingur geti fengið aðstoð við að binda endi á eigið líf ef hann er haldinn ólæknandi sjúkdómi (líknandi dauði)?“
Svarið er ótvírætt. Yfir 91% þeirra sem taka afstöðu styðja líknardauða. Vissulega er umræðan hér á landi ekki komin langt á veg en samt hefur hún verið nokkur á undanförnum árum. Greinilegt er að sjálfsákvörðunarréttur einstaklingsins um eigið líf er mönnum hugleikið. Mannúð ræður þarna einnig miklu.
Þjóðin er sammála Siðmennt
Siðmennt hefur undanfarna áratugi barist fyrir breytingum á þeim málum sem könnunin tekur yfir. Trúarbragðafræði í stað kristinfræði, hlutleysi skóla í trúmálum, úthýsing trúboðs úr leik- og grunnskólum, breytingu á sjálfkrafa skráningu hvítvoðunga í trúfélög og breytingum á að ríkið skrái þá lífsskoðun fólks og greiði trúfélögum milljarða í félagsgjöld. Ekki má gleyma kröfunni um aðskilnað ríkis og kirkju sem er grundvallaratriði trúfrelsis.
Niðurstaða könnunarinnar staðfestir að málflutningur Siðmenntar fellur að skoðunum Íslendinga. Krafa Siðmenntar er: Veraldlegt samfélag. Hvað þýðir það? Í stuttu máli allt það sem kemur fram í könnuninni. Veraldlegt samfélag tryggir hlutleysi ríkisvalds og annarra opinbera aðila þegar kemur að trúmálum og mismunar ekki á grundvelli trúar. Tryggt er að allir geti iðkað trú sína og trúleysi.
Veraldlegt samfélag er fjölbreytilegt, lýðræðislegt samfélag byggt á mannréttindum.
Höfundur er framkvæmdastjóri Siðmenntar.