Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hélt sína síðustu stefnuræðu í fyrrakvöld og eyddi miklu púðri í að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum er tengjast innflytjendamálum.
Hann sagði að Bandaríkin væru innflytjendaþjóð, og virðing fyrir innflytjendum væri Bandaríkjamönnum í blóð borin. Grundvallaratriði væri að bera virðingu fyrir fólki óháð litarhætti, trú eða stöðu í samfélaginu. Hugmyndir um annað, eins og að loka á komu múslima til landsins eða takmarka frelsi þeirra umfram aðra trúarhópa, væru ekki í takt við þessi gildi.
Uppskar hann einróma lófaklapp frá bæði Demókrötum og Repúblikönum. Augljóst var að hann beindi spjótum sínum að hinum fordómafulla Donald Trump, sem sækist eftir útnefningu Repúblikana í forsetakosningunum síðar á árinu.
Þetta eru góð skilaboð hjá Obama, sem eiga erindi hvert sem litið er. Baráttan gegn fordómunum er endalaus.