Framundan er sala á hlut íslenska ríkisins í Landsbankanum en Bankasýsla ríkisins telur að hægt sé að ljúka sölu á allt að 28,2 prósent hlut í bankanum síðar á þessu ári. Um mikil verðmæti er að ræða en eigið fé Landsbankans er um 250 milljarðar króna.
Greinilegt er að stjórnarflokkarnir ganga ekki í takt, þegar kemur að einkavæðingu bankanna, en Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hefur nefnt að ekkert liggi á þegar kemur að því að selja hlut ríkisins í bönkunum. Hann spyr einfaldlega, hvers vegna ætti ríkið að gera það á þessum tímapunkti, eða yfir höfuð?
Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, hefur hins vegar talað skýrt um að selja ætti hlut í Landsbankanum á þessu ári, og að því er stefnt, eins og fram kemur í fjárlögum ársins.
En það má vel velta því fyrir sér, hvers vegna íslenska ríkið ætti að selja hluti í bönkunum á þessum tímapunkti. Augljóslega eru íslensku lífeyrissjóðirnir þeir sem helst koma til greina sem kaupendur. Þeir teljast vera „almenningur“ alveg eins og reyndin er með ríkissjóð. Lífeyrissjóðirnir eru umsvifamiklar á íslenskum fjármálamarkaði og langsamlega stærstu viðskiptaðilar á verðbréfamarkaði, og einnig hluthafar í flestum skráðu félögunum á markaði.
Það er málefnaleg spurning, hversu mikil umsvif teljist vera æskileg þegar lífeyrissjóðir eru annars vegar.
Að sama skapi má einnig velta því upp, hvort nægilega mikil endurskipulagning hafi átt sér stað á íslensku fjármálakerfi, og hvort ríkið ætti að breyta kerfinu meira áður en það fer í að selja eignarhluti í bönkunum.
Forvitnilegt verður að fylgjast með pólitískri umræðu um þessi mál á næstunni.