Í manneskjum býr ótrúlegur kraftur framfara, þróunar og þekkingar, en líka hálfgerðir apakettir sem taka órökréttar ákvarðanir og nýta framfaraskref í heimskulegum og jafnvel vondum tilgangi. Verandi svona breysk og ófullkomin, með tilheyrandi stríðum og styrjöldum, höfum við komið á laggirnar sameiginlegri hagsmunagæslu á grundvelli ríkisfangs og þrískipts ríkisvalds. Fyrirkomulagið og fólkið þróast, en stundum ekki alveg í takt við þróun á ýmsum sviðum samfélagsins, eins og tækni og vísindum. Reglulega verða svo byltingar, stjórnmálalegar eins og sú franska sem formgerði mannréttindin og tæknilegar eins og internetið og veraldarvefurinn sem færðu okkur, kisuvídeó, kommentakerfi og ýmislegt fleira.
Internetið færði okkur hins vegar ekki hefndarklám. Það að birta kynferðislegt efni af einstaklingum án samþykkis þeirra í hefndar-, hrelli- og eða hagnaðarskyni er mun eldra en internetið. Tækni- og internetvæðing heimsins opnaði hins vegar fyrir aðgengi, hraða og umfang sem nýtist til fjölmargra góðra hluta, en líka slæmra eins og birtingar hefndarkláms. Af þeim litlu rannsóknir sem liggja fyrir um umfang hefndarkláms á netinu geta þessir eiginleikar netsins valdið meiriháttar tjóni fyrir fyrir þá sem verða fyrir hefndarklámi. Dæmin sýna að afleiðingarnar geta verið allt frá því að valda depurð til þess að þolendur svipti sig lífi. Það er þess vegna ekki undarlegt að kallað hafi verið eftir aðkomu ríkisvaldsins til þess að koma í veg fyrir slíkar hörmungar.
Þar verður til ákveðið flækjustig vegna forsögu netsins. Netið, tæknilegar eiginleikar og innviðir þess þróaðist án mikilla afskipta ríkja, þó að ævintýrið hafi framan af fyrst og fremst verið fjármagnað með almannafé. Þrátt fyrir að sum ríki væru hálfgerðir stofnfjárfestar netsins urðu álitaefni um lögsögureglur og valdheimilir ríkja á netinu ekki áleitnar fyrr en eftir að einkatölvan og aðgangur að veraldarvefnum varð hluti af daglegu lífi almennings. Netið lýtur í reynd ekki sömu landamærum og ríki eins og flestir aðrir innviðir gera hins vegar. Lögsögureglur nútímans byggja í grunninn á eldri heimsmynd og því að um sé að ræða hluti eða manneskjur í efnislegum skilningi. Fiskur sem syndir útúr lögsögu eða hlutur fluttur á milli landa.
Þegar kemur að netinu hefur þetta reynst erfiðara, sérstaklega þegar kemur að viðkvæmum málaflokkum á borð við hefndarklám. Ríki hafa vandræðast minna þegar hagsmunirnir eru viðskiptalegs eðlis. Alþjóðlegur viðskiptaréttur á rætur sínar að rekja til miðalda, en samfélögum heimsins hefur tekist að nútímavæða reglurnar og komast að samkomulagi um fyrirkomulag á viðskiptum, réttarúrræði og fullnustu skuldbindinga rafrænna viðskipta í gegnum netið þvert á landamæri og lögsögu ríkja. Svipaða sögu er að segja um vernd hugverka. Ábyrgð þeirra sem deila höfundarréttarvörðu efni og ekki síður þeirra sem eru milliliðir í slíkri dreifingu hefur verið skýr í löggjöf beggja vegna Atlanshafsins í röskan áratug. Á grundvelli þessarar löggjafar má með einföldun segja að vistunaraðila efnis sem nýtur höfundarréttarverndar beri skylda til þess að fjarlægja efnið brjóti dreifing þess gegn höfundarrétti, allt í þágu réttlætisins og verndar mannréttinda á borð við eignarrétt. Sami aðili hefur hins vegar takmarkaðar skyldur þegar kemur að hefndarklámi. Dæmi frá Bandaríkjunum um að hefndarklámsmyndir séu fjarlægðar vegna höfundarréttar þolandans, en að sömu mynd sé ómögulegt að fjarlægja á forsendum friðhelgis einkalífs skerpir ásýnd vandræðagangs. Þegar réttlætið mætir tjáningarfrelsinu í allri sinni dýrð á internetinu virðumst við klóra okkur hálfráðalaus í hausnum. Hvernig er hægt að losna við hefndarklám af internetinu? Með lögum?
Fyrsta löggjöfin sem fjallaði sérstaklega um hefndarklám og að dreifing þess væri refsinæm var sett í New Jersey í Bandaríkjunum árið 2003. Síðan þá hafa 26 ríki Bandaríkjanna kveðið á um refsinæmi hefndarkláms, þó að skilyrðin séu ekki alltaf þau sömu. Nokkur ríki í Evrópu hafa einnig gert dreifingu hefndarkláms refsiverða, síðast Bretland í apríl 2015. Lítil reynsla er þó komin á framkvæmd á grundvelli laganna og umfangsmikil mál í Bandaríkjunum hafa varpað ljósi á veikleika í þessari nálgun. Refsiákvæði um dreifingu hefndarkláms eru flest þannig að þau fjalla um háttsemi og ásetning þess sem að gerir efnið aðgengilegt.
Reyndin er því sú að ef lögreglu tekst að afla sönnunargagna um að einstaklingur hafi af ásettu ráði sett hefndarklám í dreifingu er hugsanlega hægt að sakfella hann fyrir þann gerning. Það hefur hins vegar ekkert að segja um efnið sem ennþá liggur á netinu vegna þess að milliliðirnir bera ekki ábyrgð á að fjarlægja eða loka á efnið nema það geti talist barnaklám. Nú eða ef hægt er að sýna fram á höfundarrétt. Ýmis fyrirtæki eins og Facebook, Instagram og Google hafa þó séð hag sinn í breyta notendaskilmálum sínum til þess að spyrna við birtingu hefndarkláms. Sérstök eyðublöð eru aðgengileg á þjónustuborðum þessara aðila, að fyrirmynd höfundarréttarins, þannig að efni sem talið er hefndarklám verði ekki aðgengilegt í gegnum starfsemi félaganna. Þetta er ekki gert á grundvelli lagaboðs. Þarna þjónustar einkafyrirtæki einstakling vegna háttsemi apakatta á internetinu.
Það er allur gangur á því hvort hefndarklámslöggjöf sem í gildi er geri greinarmun á því hvernig efnið varð til, hvernig það komst í hendur viðkomandi eða hvers eðlis dreifingin er. Allir þessir þættir geta hins vegar skipt miklu máli þegar um refsimál er að ræða. Þættir í háttseminni geta einnig falið í sér að hún geti fallið undir ákvæði laga þó svo ekki sé sérstaklega vísað til hefndarkláms í viðkomandi ákvæðum. Þegar vefsíðunni youvebeenposted.com var lokað og fyrirsvarsmaður síðunnar dæmdur til 18 ára fangelsisvistar birtu íslenskir fjölmiðlar fréttir af fangelsisrefsingu manns fyrir að reka hefndarklámssíðu.
Þetta er talsverð einföldun. Starfsemi síðunnar gekk út á að notendur gátu hlaðið inn hefndarklámsefni og persónugreinanlegum upplýsingum um konurnar sem þar sáust með ósk um að aðrir notendur síðunnar myndi horfa á efnið og leggja sig svo fram við að eyðileggja líf viðkomandi kvenna hvort heldur sem í gegnum netið eða augliti til auglitis. Ef konur óskuðu eftir því að efnið væri fjarlægt af síðunni var þeim vísað á aðra vefsíðu sem sami maður rak þar sem þeim var boðið að greiða fyrir að efnið yrði fjarlægt af vefsíðunni. Hann var dæmdur til fangelsisvistar fyrir fjárkúganir og brot sem má heimfæra undir brot á persónuvernd. Í öðru máli komst FTC, eftirlitsaðili á alríkisstigi í Bandaríkjunum sem fer meðal annars með eftirlit með neytendalöggjöf, að þeirri niðurstöðu að starfsemi vefsíðunnar IsAnyoneDown.com færi í bága við löggjöf um neytendavernd þar sem að á vefsíðunni var að finna hefndarklámsmyndir af konum og upplýsingum um þær og notendur hvattir til þess að ofsækja þær. Þetta taldi eftirlitsaðilinn villandi viðskiptahætti, beitti fyrirsvarsmanninn sektum og lét loka síðunni. Refsilöggjöf um hefndarklám hafði ekkert með þessi mál að gera.
Stundum eru það heldur ekki bara lögin sem eru vandinn. Það er hugsanlegt að aðrir mikilvægir þættir réttarvörslukerfisins hafi ekki verið uppfærðir. Í nýlegri rannsókn kemur fram að sænskir lögreglumenn telja skort á þjálfun lögreglumanna helsta vandann við rannsókn brota á netinu. Athugasemdir þeirra draga fram þá staðreynd að það er ekki nóg að setja lög ef ekki er hægt að beita þeim. Þá verður til hætta á að þau geti snúist upp í andhverfu sína og veikt réttarkerfið í stað þess að styrkja það eða uppfæra það til þess að gera því kleift að sinna hlutverkinu sem við höfum ætlað því.
Höfundur stundar doktorsnám í mannréttindum og internetlöggjöf við Sussex háskóla.