Ríkissáttasemjari hefur boðað samningafund á föstudagsmorgun, í launadeilum starfsmanna álvers Rio Tinto Alcan í Straumsvík við fyrirtækið, að því er fram kom í fréttum RÚV.
Nú hefur komið fram yfirlýsing frá móðurfélagi álversins, Rio Tinto, um að laun starfsmanna álversins verði fryst út árið.
Ástráður Haraldsson hrl. og lögmaður verkalýðsfélagsins Hlífar í Hafnarfirði, sagði í samtali við RÚV að þessi yfirlýsing hefði takmarkaða þýðingu, og væri lítilsvirðing gagnvart því verkefni að reyna að ná sáttum í erfiðri vinnudeilu.
Þetta er rétt hjá Ástráði, og svívirðilegt að móðurfélag álversins, telji sig geta gert hvað sem er, þegar launadeilur samkvæmt íslenskum leikreglum eru annars vegar. Forvitnilegt verður að heyra hvernig þessi yfirlýsing horfir við lögmönnum Samtaka atvinnulífsins, og hvort þeir séu almennt á því að svona framkoma sé æskilegt innlegg til lausnar í kjaradeilum.