Það virðist ekki vera sem stjórnarflokkarnir gangi í takt, þegar kemur að sölu á eignarhlutum ríkisins í bönkunum. Ríkið á nú Landsbankann og Íslandsbanka nánast að öllu leyti, og eins og fram komu á þessum vettvangi í gær, þá er fátt sem bendir til þess að ríkið þurfi að selja hluti sína í bönkunum hratt.
Stefnt er að því að selja hlut í Landsbankanum á þessu ári, samkvæmt fjárlögum ársins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segist treysta Bankasýslunni til að meta það, hvernig sé best að haga þessum hlutum, en samkvæmt stefnu Framsóknarflokksins er það vilji flokksins að Landsbankinn verðir samfélagsbanki. Sjálfstæðisflokkurinn vill það ekki, og hefur Bjarni Benediktsson, formaður flokksins og efnahags- og fjármálaráðherra, ítrekað þá skoðun.
Nú þegar um 17 mánuðir eru til kosninga, verður forvitnilegt að sjá hvernig stjórnarflokkarnir munu halda á þessum máli.