Það var ánægjulegt í fyrra þegar Umboðsmaður Alþingis leiddi, með hnífbeittan pennann að vopni, fram sannleikann í lekamálinu svokallaða og þátt Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra, í því.
Hún gerði þau miklu mistök að skipta sér af lögreglurannsókn á eigin ráðuneyti, sem að lokum leiddi til þess að hún sagði af sér sem ráðherra, en Stefán Eiríksson hafði þá þegar hætt sem lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu - vafalítið meðal annars vegna þessara fráleitu vinnubragða ráðherrans - og Sigríður Björk Guðjónsdóttir tók við hans starfi.
Þessi atburðarás er þekkt og liggur fyrir, og ekki meiningin að rifja hana hér upp í smáatriðum.
En ein hlið málsins, á snertiflöt við þær augljósu og alvarlegu deilur sem nú eiga sér stað innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Það er mikilvægi þess að gera hlutina fyrir opnum tjöldum, og birta gögn sem máli skipta, svo almenningur geti áttað sig betur á því hvað gengur á.
Sá tími er liðinn, að æðstu starfsmenn ríkisins geti skammtað upplýsingum til almennings, eftir eigin geðþótta. Það er ekki nóg. Það þarf að vera með opna upplýsingastefnu, þegar kemur að atriðum eins og samskiptum æðstu starfsmanna lögreglunnar. Staðfest hefur verið í úttektum sérfræðinga að mikill samskiptavandi er fyrir hendi innan lögreglunnar.
Lögreglan hefur innan sinna raða gögn þar sem fjallað er um samskiptavanda innan lögreglunnar, og einnig önnur atriði, sem varða ekki einstök mál beint, heldur hvernig vandamál hafa verið hrannast upp í lögreglunni vegna þess að fólk á erfitt með að vinna saman.
Nú hefur Aldís Hilmarsdóttir, yfirmaður fíkniefnadeildar, verið færð til í starfi af Sigríði Björk, en hún átti nýverið fund með Ólöfu Nordal innanríkisráðherra þar sem hún kvartaði yfir stjórnarháttum Sigríðar Bjarkar, samkvæmt því sem komið hefur fram hjá RÚV.
Lögreglan verður að leysa úr þessum vanda innan yfirstjórnar og einstakra deilda fyrir opnum tjöldum, til að vernda traust og trúnað við almenning. Hann verður að vita hvað er á seyði, í málum eins og þessum. Í versta falli verður innanríkisráðherra að taka málin í sínar hendur, og gera grein fyrir stöðu mála.