Sam Walsh, forstjóri Rio Tinto á heimsvísu, segist reikna með því að árið 2016 verði jafnvel erfiðara í rekstri fyrirtækisins heldur en árið 2015, sem var eitt erfiðasta rekstrarár í sögu fyrirtækisins. Þetta kom fram í tölvupósti sem hann sendi til starfsmanna fyrir tólf dögum, og vitnað var til á vef Australian Mining en í tölvupóstinum greindi hann frá því að öll laun starfsmanna fyrirtækisins yrðu fryst á árinu 2016, og að einblínt yrði á að verja lausafjárstöðu fyrirtækisins í erfiðu árferði.
Eins og fram hefur komið á vef Kjarnans, þá er þessi framkoma Rio Tinto, sem byggir á ákvörðun Walsh, gagnvart starfsmönnum á Íslandi, fyrir neðan allar hellur. Undarlegt er að stjórnvöld, ásamt verkalýðshreyfingunni og atvinnurekendum, bendi ekki á hið augljósa - í sameiningu - að Rio Tinto hafi engan rétt til þess að segja sig frá íslenskum vinnurétti og kjarasamningum. Yfirlýsingin um launafrost er lítið annað en ögrun við íslenskan vinnumarkað, og mikilvægt er að aðilar vinnumarkaðarins hafi sjálfstraust til þess að mæta þessum skilaboðum að utan.
Annars fær fyrirtækið að vaða yfir starfsmenn sína í Straumsvík, og allan íslenskan vinnumarkað í ljósi fordæmisins, alveg óáreitt. Það er óviðunandi staða.