Þessa dagana fer fram mikilvæg umræða um sölu bankanna á eignum, og hvernig staðið hefur verið að eignasölu allt frá því þeir urðu til á grunni rústa hinna föllnu banka, Landsbankans, Kaupþings og Glitnis.
Án þess að kastljósið sé sett á sértæk dæmi, þá gleymist stundum, að bönkum er óheimilt samkvæmt lögum að eiga í fyrirtækjum, í heild eða hluta, sem stunda óskyldan rekstur. Fjármálaeftirlitið (FME) getur veitt undanþágur og heimilað bönkunum tímabundið að koma að óskyldum rekstri.
Það hefur FME ítrekað gert, og nú, rúmlega sjö árum eftir að bankarnir voru endurreistir og tóku þá yfir mörg fyrirtæki í heild eða að hluta, þá eru dæmi um að bankarnir séu eigendur fyrirtækja, í heild eða að hluta, sem koma bankarekstri ekkert við.
Ekki þarf að hafa mörg orð um, að þessi staða grefur undan samkeppnishvötum á markaði, en fyrst Alþingi er byjrað að kafa ofan í þessi mál - loksins - þá er mikilvægt að fulltrúar FME séu spurðir út í þau. Hefur FME markað nægilega skýran ramma um hvernig bankarnir skuli standa að því að selja eignir? Getur verið að það vanta skýra leiðsögn um þessi mál?
Vonandi heldur Alþingi áfram að spyrja spurninga um þetta og leita svara um þessa stöðu, eins og fjölmiðlar hafa gert árum saman.