Stjórnvöld hyggjast selja hlut í Landsbankanum á þessu ári, og er sá vilji niðurnjörvaður í fjárlögum. Augljós ágreiningur er milli stjórnarflokkanna, um hvort það sé skynsamlegt að selja hlutinn, en það verður að teljast einkennilegt, að hann hafi orðið sýnilegri þegar fjárlögin voru samþykkt.
Framsóknarflokkurinn er ekki á þeim buxunum að selja hlut í bankanum, og horfir til samfélagsbankahugmyndar, eins og sjá má á samþykktum flokksins.
Sjálfstæðisflokkurinn vill selja hlutinn og er það greinilegt á því hvernig Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra og formaður flokksins, hefur talað um þau mál og fjárlagafrumvarpið sem hann mælti fyrir.
Samkvæmt fjárlögunum gæti ríkið fengið rúmlega 70 milljarða fyrir hlutinn í Landsbankanum, en Bankasýslan horfir til þess að 28,2 prósent hlutur gæti farið í sölumeðferð á þessu ári.
Eitt sem verður að teljast undarlegt, hversu lítið er rætt um. Stjórnvöld hafa þegar ákveðið að selja hlutinn á þessu ári, og reikna með tekjum, samkvæmt fjárlögunum, sem marka alla vinnu á hinu pólitíska sviði. Er skynsamlegt að setja svona þröngan tímaramma á sölu á verðmætum sem þessum? Það er ekki endilega víst, enda geta áhugasamir kaupendur beitt þessum tímaramma, og þessum áformum, til að þrýsta niður verði. Á Íslandi eru líka ekki margir burðugir fjárfestar, aðrir er lífeyrissjóðirnir, sem geta keypt, og því óþarfi að flýta sér. Ef hugmyndin er að selja erlendum fjárfestum hlutinn, þá þarf væntanlega að undirbúa það vel, eins og rakið er ágætlega í skýrslu Bankasýslunnar.
En aðferðafræðin skiptir líka mál, og skráning á markað gæti hjálpað til við að framkvæma söluna með trúverðugum og gagnsæjum hætti.
Eins og bent hefur verið á áður, þá verða stjórnvöld að vanda sig, enda miklir hagsmunir í húfi og spor sögunnar hræða.