Á fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga var fjallað um stöðu og rekstrarumhverfi hjúkrunarheimila, og ályktað á þá leið að við ákvörðun „daggjalda hjúkrunarheimila verði tekið tillit til húsnæðiskostnaðar heimilanna, daggjöldin byggi á kröfulýsingum ríkisins og gæðaviðmiðum Landlæknisembættisins um starfsemi þeirra og smæðarálag sé ákvarðað á þann hátt að lítil hjúkrunarheimili verði gerð rekstrarfær.“
Fundurinn var haldinn föstudaginn 29. janúar.
Frá því í janúar 2015 hafa staðið yfir viðræður milli Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) um gerð þjónustusamninga, en hægt gengur að ná niðurstöðu, að því er segir í fréttabréfi Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Fulltrúar hjúkrunarheimilanna hafa lagt áherslu á eftirfarandi fimm þætti í viðræðunum, að því er segir í fréttabréfinu:
Greitt sé eðlilegt, sanngjarnt og rétt verð fyrir þjónustu hjúkrunarheimila.
Greidd sé húsaleiga til allra hjúkrunarheimila.
Gengið sé frá yfirtöku lífeyrisskuldbindinga allra hjúkrunarheimila.
Aukinn kostnaður vegna launahækkana sé greiddur hjúkrunarheimilum með réttum og skilvirkum hætti.
Útfærslu á svokölluðu smæðarálagi fyrir rekstur lítilla og meðalstórra hjúkrunarheimila.
Sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs sambandsins hefur tekið þátt í viðæðum SVF við SÍ, sem fulltrúi sambandsins, og hefur þar gætt hagsmuna þeirra hjúkrunarheimila, sem eru rekin með sveitarfélög sem fjárhagslegan bakhjarl, en eru sum hver ekki aðilar að SVF. Eftirfarandi ályktun var samþykkt samhljóða á fundinum:
„Á fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem haldinn var þann 29. janúar 2016, var staða samninga um daggjöld hjúkrunarheimila við Sjúkratryggingar Íslands rædd, svo og erfið fjárhagsstaða hjúkrunarheimila víða um land.
Stjórnin leggur áherslu á að við ákvörðun daggjalda hjúkrunarheimila verði tekið tillit til húsnæðiskostnaðar heimilanna, daggjöldin byggi á kröfulýsingum ríkisins og gæðaviðmiðum Landlæknisembættisins um starfsemi þeirra og smæðarálag sé ákvarðað á þann hátt að lítil hjúkrunarheimili verði gerð rekstrarfær.
Ef ekki er vilji til þess að ganga að þeim kröfum verði hafnar viðræður um að rekstur viðkomandi hjúkrunarheimila færist alfarið til ríkisins. Einnig leggur stjórn sambandsins ríka áherslu á að viðræður um lífeyrisskuldbindingar hjúkrunarheimila hefjist sem fyrst.“
Í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga eru tíu fulltrúar sveitarfélaga af landinu. Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, er formaður, en auk hans eru Björn Blöndal, frá Bjartri framtíð, og Skúli Helgason, Samfylkingunni, einnig fulltrúar Reykjavíkurborgar í stjórninni. Aðrir í stjórn eru Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, Gunnar Axel Axelsson, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, Jónína Erna Arnardóttir, Borgarbyggð, Halla Sigríður Steinólfsdóttir, Dalabyggð, Gunnhildur Ingvarsdóttir Fljótsdalshéraði, Eiríkur Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, Aldís Hafsteinsdóttir, Hveragerðisbæ, og Ísólfur Gylfi Pálmason, Rangárþingi eystra.