Nú berast af því fréttir frá Þýskalandi, að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sé að berjast fyrir pólitískri framtíð sinni, vegna harðrar umræðu um flóttamenn. Um þetta má meðal annars lesa í alþjóðlegri útgáfu Spiegel. Merkel er sögð einangruð og eigi sér fáa stuðningsmenn meðal stjórnmálamanna í Þýskalandi. Mikil breyting hefur orðið á skömmum tíma.
Frá því að Merkel beitti sér fyrir opnun Þýskalands fyrir um einni milljón flóttamanna, meðal annars eftir að hafa heimsótt flóttamannabúðir í Suður-Evrópu og fengið kynningar á stöðu mála í stríðshrjáðum svæðum í Sýrlandi, Írak, Afganistan og Líbíu, hefur mikið vatn runnið til sjávar.
Viðvarandi ótti við hryðjuverk hefur haft mikil áhrif, og virðist sem hræðsla sé búin að festa rætur. Og, því miður, eru alltaf einhverjir - bæði álitsgjafar og stjórnmálamenn - sem tengja hryðjuverk við flóttamenn, eins ömurlegt og óréttlátt og það er. Þá eru einstök ofbeldismál einnig mögnuð upp í fjölmiðlaumræðu, og stjórnmálamenn, sem þefa uppi rasisma og vinsældarbrölt, ganga á lagið.
Það er ekki hægt að gera neitt annað en vona, að ríkustu þjóðir heimsins - hin vestrænu ríki - nái að koma sér saman um áhrifameiri leiðir til að takast á við mikinn straum flóttamanna heldur en nú hefur verið gripið til, og það sama má segja um hernaðaraðgerðirnar í Sýrlandi, Írak, Afganistan og víðar.
Hernaðarpólitík er flókin og ekki ætlunin að rekja hana í þessum stutta pistli, en það er sanngjarnt að spyrja að því, hvort það hafi verið rétt viðbrögð hjá Francois Hollande, forseta Frakklands, að lýsa yfir stríði við íslamska ríkið og láta vopnin tala, strax í kjölfar hryðjuverkanna í París. Sagan dæmir ekki álíka viðbragð Bandaríkjamanna við árásinni á tvíburaturnanna í New York, 11. september 2001, vel.
Að leysa óttann úr læðingi, snöggt og af mikilli pólitískri sannfæringu, færir hann upp á yfirborðið þar sem hann kemur sér fyrir í mannlífinu. Í Evrópu er óhætt að tala um það, að óttinn sé nú nágranni fólks hvert sem litið er. Stórkarlalegar yfirlýsingar um að óvininum verði eytt, eru innihaldslausir frasar þegar hryðjuverkaógnin er annars vegar.
Þegar ákvörðunin um að opna Þýskaland fyrir einni milljón flóttamanna var tekin, voru stjórnmálamenn í Bandaríkjunum að rífast um það, af mikilli hörku, hvort landið gæti tekið við tíu þúsund flóttamönnum frá Sýrlandi. Niðurstaðan úr því rifrildi var sú, að það var lokað á fólkið frá Sýrlandi og getur það nú aðeins komist til Bandaríkjanna, eftir langt ferli, sem tekur allt að því tvö ár.
Ómögulegt er að segja til um það, hvað hefði gerst, ef Merkel hefði ekki beitt sér fyrir því að opna landið jafn hratt og mikið fyrir flóttamönnum. Hörmungar stríðs í Evrópu eru ekki útilokaðar, og heldur ekki þúsundir ótímabærra dauðsfalla.
Það er ekki hægt að vera vitur eftir á í þessum efnum, en Merkel ætti þó að fá að njóta vafans af þessari risavöxnu og djörfu ákvörðun sem hún tók, ólíkt öllum öðrum þjóðarleiðtögum vestrænna ríkja. Ef ekki hefði til hennar komið, þá væru vandamálin líklega mun fleiri og stærri.