Umfjöllun Kastljóss og RÚV um farsímanotkun atvinnubílstjóra, að undanförnu, hefur verið sláandi. Kæruleysið sem bílstjórar sýndu á þeim myndböndum, sem voru til umfjöllunar, var algjört, og eitthvað sem líkja má við tikkandi tímasprengju á vegum landsins.
Það var einnig sláandi að sjá bílstjóra Strætó vera í símanum meðan hann var við stýrið með farþega í bílnum. Algjörlega óboðlegt og ekki afsakanlegt með nokkrum hætti.
Það var gott hjá Jóhannesi Rúnarssyni, framkvæmdastjóra Strætó, að fordæma þessa hegðun með afdráttarlausum hætti í fréttum RÚV. Vonandi leiðir þessi afhjúpandi umfjöllun til þess að bílstjórar verði með hugann við aksturinn framvegis.