Fréttir berast nú af því að bandaríski herinn ætli sér að koma upp aðstöðu á Keflavíkurflugvelli á nýjan leik, tæpum tíu árum eftir að hann fór frá landinu með skömmum fyrirvara. Fréttavefurinn Stars and Stripes, sem bandaríski herinn heldur úti, greindi fyrst frá málinu, en bandaríski herinn hefur samkvæmt fréttunum óskað eftir fjármagni á fjáráætlun varnarmálaráðuneytisins á næsta ári til þess að uppfæra flugskýli í Keflavík, svo hægt sé að hýsa þar P-8 Poseidon flugvélar, en þær hafa komið í stað P-3 Orion vélanna sem voru staðsettar í herstöðinni í Keflavík þegar herinn var þar. Ætlun Bandaríkjahers er að fylgjast betur með kafbátaumferð Rússa í Norður-Atlantshafi.
Slíkar vélar eru reglulega sendar til Keflavíkur í eftirlitsflugi, samkvæmt upplýsingum hersins.
Utanríkisráðuneytið segir að engar formlegar viðræður um endurkomu Bandaríkjahers til landsins hafi átt sér stað, en herinn hafi áhuga á því að auka umsvif sín. Í fyrstu tímabundið, en hugsanlega til lengri tíma, enda aðstæður í öryggismálum í Evrópu og í Norður-Atlantshafi breyst mikið á skömmum tíma.
Ísland verður alltaf peð í stórveldakapphlaupum, valdabaráttu og spennu þegar stríðstímar eru annars vegar. En vonandi geta íslensk stjórnvöld staðið faglega að hagsmunamati landsins, nú þegar bandaríski herinn er aftur farinn að sýna áhuga á því að koma sér fyrir á Íslandi. Það eru stórpólitísk tíðindi sem mikilvægt er að taka alvarlega.