Samfylkingin er í sárum, og hefur frá því hún var stofnuð árið 2000 líklega aldrei verið nær því að liðast í sundur. Hennar helsta vandamál í augnablikinu eru ekki fylgistölur, sem eru þó þær lægstu sem sést hafa frá stofnun flokksins (9,2 prósent Gallup). Heldur er flokkur með sundraða forystusveit, óljósa málefnastöðu og virðist með engu móti átta sig á erindi sínu.
Árni Páll Árnason, formaður flokksins, hefur lengi verið laskaður í sínu hlutverki vegna þess hve veikt umboð hann hefur haft, einkum eftir síðasta landsfund þar sem hann stóð uppi sem sigurvegari í formannskosningu, með eins atkvæðis mun, eftir baráttu við Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur.
Í bréfi sem Árni Páll sendi á flokksmenn í gær, fjallar hann um mistök sem Samfylkingin hefur gert á undanförnum árum, sem hann telur að séu meðal ástæðna fyrir slæmri stöðu flokksins. Meðal annars gagnrýnir hann hvernig stofnað var til ESB-aðildar, á grundvelli baktjaldamakks sem aldrei hélt, og einnig að flokkurinn hafi misst talsamband við verkalýðshreyfinguna og atvinnulífið. Svo fátt eitt sé nefnt.
Greiningin hjá Árna Páli stuðar eflaust marga flokksmenn, einkum og sér í lagi þá sem voru nærri forystusveitinni þegar Jóhanna Sigurðardóttir var formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra. Mörg þessara mála sem Árni Páll nefnir voru á oddinum þegar Jóhanna var í forystu flokksins í ríkisstjórn.
Það er álitamál hvort flokkurinn er með nægilega sterka innviði í augnablikinu til þess að geta spyrnt sér frá botni. Til þess er erindi flokksins algjörlega óljóst, jafnvel þó margvísleg stór samfélagsleg mál séu á oddinum, þar sem hefðbundin félagshyggjuviðhorf rúmast vel til lausnar á hinu pólitíska sviði. Má þar nefna endurskipulagningu fjármálakerfisins sem íslenska ríkið er nú komið með aftur í fangið eftir misheppnað tilraun til útrásar fjármálaþjónustu með Seðlabanka Íslands sem þrautavaralánveitanda með peningaprentunarvald í krónum. Eftir stendur einangrað hagkerfi í alþjóðavæddum heimi.
Bréf Árna Páls, og tilraunin til að hreinsa andrúmsloftið, getur verið upphafið að endalokum flokksins, eða byrjunarpunktur nýs ferðalags. Næstu mánuðir munu leiða í ljós hvort verður.