Stuart Robert, sem var ráðherra mannauðsmála (Minister of Human Resources) í Ástralíu, sagði af sér í gær, vegna frétta af því að hann hefði talað máli ástralsks fyrirtækis í Kína. Í sérstakri rannsókn vegna þessara ásakana, á vegum yfirvalda, kemur fram að Robert hafi sýnt af sér kæruleysi, og ekki hegðað sér í samræmi við skyldur embættisins, og ekki heldur virt viðurkennda verkferla sem sæma góðri stjórnsýslu.
Þessi ákvörðun Robert er áhugaverð og ástæður hennar sömuleiðis, þegar hún er borin saman við sambærilegt mál hér á landi. Það snýr að Illuga Gunnarssyni.
Illugi hefir legið undir ámæli vegna tengsla sinn við Hauk Harðarson, stjórnarformann fyrirtækisins Orku Energy. Haukur réð Illuga sem ráðgjafa fyrirtækis síns á meðan að Illugi var í launalausu leyfi frá þingstörfum vegna rannsóknar á peningamarkaðssjóði Glitnis, Sjóði 9, þar sem Illugi sat í stjórn fyrir bankahrunið. Haukur keypti síðan íbúð Illuga af honum í fyrrasumar og leigði honum hana síðan aftur. Illugi var þegar orðinn ráðherra þegar hann seldi íbúðina, en það gerði hann eftir að „nokkur fjárhagsleg áföll“ höfðu dunið á honum.
Illugi horfir ekki eins á málin og Robert, svo mikið er víst. En það er vel hugsanlegt, að það megi kafa ofan í málin hjá Robert og draga lærdóm af því hvernig verk hans voru skoðuð og hvaða ályktanir voru dregnar af þeim.