Innkoma íslenskra banka og lífeyrissjóða, í olíuiðnaðinn í Norðursjó, hefur gengið illa og eru milljarða fjárfestingar mögulega í uppnámi. Kjarninn hefur fjallað ítarlega um þessi mál í fréttaskýringum að undanförnu. Mikið verðfall á olíu á undanförnum 15 mánuðum hefur gert fyrirtækjum í þjónustuiðnaði við olíuvinnslu lífið leitt, og eru mörg fyrirtæki í Noregi sögð vera að berjast fyrir lífi sínu þessa dagana.
Á meðal þeirra er Havila Shipping ASA, sem hefur fært niður virði skipaflotans um 21 milljarða, en Íslandsbanki og Arion banki eiga mikið undir í viðskiptum vegna rekstrar þess félags.
Eitt væri til fyrirmyndar hjá lífeyrissjóðum almennings og bönkunum sömuleiðis, ekki síst Íslandsbanka sem almenningur á, það er að gera rækilega grein fyrir stöðu mála er varða þessi verkefni, og hvaða upphæðir tapast miðað við upphaflegar fjárfestingar, þegar það liggur fyrir.
Það borgar sig að hafa allt upp á borðum, þegar veðmálin í viðskiptum ganga ekki upp. Vonandi tekst þó að lágmarka tjónið, enda mun almenningur - og einkafjárfestar sem eru þátttakendur í verkefninu - borga brúsann með einum eða öðrum hætti.