Fyrir um þremur áratugum sá framsýnasta fólk fyrir sér að upplýstur almenningur á Vesturlöndum myndi innan skamms lesa opinber gögn í frítíma sínum og taka þátt í að stjórna landinu á kvöldin. Þetta gerðist með tilkomu einkatölvanna og netsins.
Hugmyndin var kannski ekki alveg ný, Lenín hafði stefnt að hinu sama tæpri öld áður og sagt að jafnvel eldabuskur ættu að geta stjórnað ríkinu, en nú kom hún á réttu augnabliki í sögu vestræns lýðræðis; þátttaka í kosningum hafði minnkað og einnig tiltrú ungs fólks á sjálfu stjórnkerfinu - og nútímatæknin vakti nýjar vonir um áhuga almennings á stjórnmálum.
Ný framtíðarsýn
Í framhaldinu komu fram hugtök sem studdu ný hlutverk upplýsingatækni. Þau vörðuðu einkum upplýsingagjöf sem nú er kallað gagnsæi og síðan þátttöku sem við köllum hér samráð (e. participatory democracy). Í þriðja lagi má tala um frelsishugmyndir netsins sem að vissu marki er ný samfélagssýn. Hér er einkum fjallað um þessi þrjú aðalatriði þótt upplýsingatæknin hafi borið með sér margar fleiri hugmyndir og form, til dæmis um samvinnu og hún og samfélagsmiðlarnir leika stórt frelsishlutverk víða um heim. Hafa verður í huga að baráttan fyrir þessum nýju hugtökum eða hugmyndum er viðvarandi enda eru þær framandi hefðbundinni opinberri framkvæmd og jafnvel hugmyndum um markaðshegðun. Eftir hrun, í búsáhaldabyltingunni, voru þær fyrir alvöru kynntar í íslenskum stjórnmálum.
Áhrif netsins á stjórnmál og lýðræði eru viðfangsefni fræðimanna og víða hafa verið settar upp sérstakar informatics-deildir innan stjórnmálafræði- eða félagsvísindadeilda sem rannsaka hagnýtingu tækninnar og áhrif hennar á samfélög.
Framkvæmd þessara hugmynda er nú opinberlega keppikefli allra lýðræðislegra ríkisstjórna og hefur verið studd af Sameinuðu þjóðunum frá því Millenium áætlunin kom fram, og Stjórnsýslustofnun þeirra (UNPAN, United Nations Public Administration Network) hefur mælt framkvæmd lýðræðislegrar upplýsingagjafar og samráðs í aðildarríkjum sínum frá 2003, einkum í því skyni að leiðbeina og veita ríkisstjórnum í þriðja heiminum aðhald. Þá hafa Alþjóðlega efnahagsstofnunin (WEF) og Alþjóðlega fjarskiptasambandið (ITU) beitt sér fyrir innleiðingu upplýsingatækni og netsins.
Gagnsæi
Upplýsingagjöf er mikilvægust fyrir lýðræðið. Krafan um opinn aðgang að opinberum gögnum á netinu er almenn og tekur til flest allra opinberra starfa. Að orðið sé við henni er grundvallaratriði í lýðræðinu og forsenda samráðs og virkni almennings. Og fullyrða má að aldrei í sögu mannkynsins hafi verið jafn opinn aðgangur að upplýsingum.
Alþjóðastofnanir hafa notfært sér netið til þess að koma tölfræði og staðreyndum á framfæri, meðal annars í því skyni að veita stjórnvöldum einstakra ríkja aðhald varðandi það sem þau leggja á borðið gagnvart íbúum sínum. Þær hafa farið á undan í þessu efni, en einstakar ríkisstjórnir og sveitarfélög á Vesturlöndum hafa líka brugðist vel við bæði í orði og verki. Alþjóðastofnanir fylgjast með tölvuvæðingu ríkja, en minna eftirlit er með lægri stjórnsýslustigum.
Til að byrja með voru deilur á alþjóðavettvangi um eignarhald á upplýsingum. Í anda NPM (New Public Management, hægri stjórnmála- og stjórnsýslustefna sem kom fram undir 1990 á tímum Reagans og Thatcher) komu fram hugmyndir um að einkaaðilar dreifðu opinberum upplýsingum á netinu gegn hóflegu gjaldi og þær tókust á við frelsishugmyndir netsins um opnar upplýsingar. Netverjar og raunar margir lögmenn og fræðimenn sögðu að almenningur hefði þegar greitt fyrir gerð opinberra upplýsinga og að opinbert vald yrði að fjármagna starfsemi sína með öðrum hætti, ekki síst í ljósi lýðræðishlutverks upplýsinga. Segja má að hugmyndirnar um opin aðgang hafi orðið ofan á í okkar heimshluta.
Hér á landi tókst Alþingi á árinu 1995 á við dómsmálaráðuneytið um hvort selja ætti aðgang að lagasafninu og vann eftirminnilegan sigur. Engu að síður selja íslensk stjórnvöld enn aðgang að nokkrum gagnasöfnum ríkisins. Þessar alþjóðlegu deilur eru raunar enn í gangi og taka til sífellt nýrra sviða, má þar nefna aðgang að nýrri þekkingu sem verður til með rannsóknum sem nú er í síauknum mæli í opnum aðgangi. En alþjóðlegir auðhringir hafa um árabil reynt að loka eða hafa lokað á dreifingu hennar með einokunartilburðum í fræðigreinaútgáfu. HÍ hefur nýverið samþykkt stefnu um opinn aðgang að rannsóknum og Rannís setur slíkt skilyrði fyrir vísindastyrkjum.
Eftir árásirnar á tvíburaturnana 2001 fóru flestar vestrænar ríkisstjórnir að samþætta upplýsingar (samkeyra), það var orðin óhjákvæmileg nauðsyn og það er nú viðtekið verkefni ríkisins. Samþættar upplýsingar gera stjórnvöldum kleift að stjórna með meiri nákvæmni og bregðast fyrr við en nokkru sinni áður, að ekki sé minnst á árangur á öðrum sviðum svo sem varðandi það að tryggja öryggi og hindra svik – engu farsælu ríkisvaldi verður lengur stjórnað með eldri tækni, samþættingin hefur tekið við sem öflugasta stjórntækið. Samþætting upplýsinga er tæknilegur grundvöllur þess að veita almenningi heildstæðar upplýsingar um opinberan rekstur sem og um eigin samskipti einstaklinga og fyrirtækja við opinbert vald, auk þess sem hún gerir mögulegt að afgreiða á einum stað erindi aðila sem fara til afgreiðslu margra stofnana. Hún er þannig lykillinn að einföldun þjónustu og aukinni hagkvæmni og skilvirkni opinberra starfa. Samþættingin skapar upplýsingasamfélag framtíðar. UNPAN mælir hversu vel ríkisstjórnir samþætta þjónustu sína og það hefur ESB líka gert.
Á síðasta áratug síðustu aldar kom upp mikil umræða um að samþættar upplýsingar sköpuðu nýja persónuverndarhættu. En sú umræða hefur alveg hljóðnað og þær hugmyndir eru nú gamaldags og hindra framþróun. Í dag nota stjórnvöld aðrar aðferðir til að hafa eftirlit með almenningi, þau gera það í forvirkum rannsóknum; hleranir á símum og netinu (hjá þjónustuaðilum) eru rauntímaeftirlit. En samþættingin hefur út af fyrir sig ekki skapað þá persónuverndarhættu sem spáð var.
Samráð
Fá málefni sem varða upplýsingatæknina hafa fengið meiri athygli á umliðnum árum en nýir möguleikar netsins á samráði stjórnvalda við almenning, við það hafa ekki hvað síst verið bundnar vonir og væntingar. Flestar alþjóðastofnanir hafa fjallað um málið og ESB varið fjármagni í rannsóknir og framkvæmdir. Umræðan hefur verið mjög víðtæk. Ný hugtök hafa komið fram; þátttökulýðræði er almennt yfirheiti um samráð á netinu (e. participatory democracy, oft kallað e-participation af alþjóðastofnunum), íbúalýðræði tekur til samráðs á lægri stjórnsýslustigum (e. local democracy) og umræðulýðræði er heiti á fræðikenningu sem varðar málið (e. deliberative democracy). Líka kallað rökræðulýðræði.
Umræðulýðræði er vinsælt á Norðurlöndunum og á Vesturlöndum sem aðferð við framkvæmd sameiginlegrar ákvarðanatöku og hefur víða komið til framkvæmda á lægri stjórnsýslustigum. Umræðulýðræði leggur áherslu á að niðurstöður í sameiginlegum málum megi fá fram með samræðu og að hún geti leitt til sameiginlegs skilnings, til lögmætrar og réttmætrar niðurstöðu, án þess að til kosninga komi. Umræðulýðræði er í miklu uppáhaldi hjá fylgismönnum þátttökulýðræðis sem nýtt samræðuform á netinu. Margir hafa lagt áherslu á að það styrki fulltrúalýðræðið og bæti undirbúning mála og tækni félagsmiðla hefur í mörgum tilvikum verið notuð til þess að mynda umræðuvettvang sveitarstjórna við íbúa sína, einkum erlendis og í litlum mæli hér á landi.
Hins vegar hafa eldri bandarískar hugmyndir um lýðræði líka breiðst út á netinu og einkum hugmyndir um beint lýðræði. Þær leggja áherslu á aðkomu almennings að ákvarðanatökunni og að einfaldur meirihluti taki réttar ákvarðanir (þessu fylgir áhersla á talningu) og hafa náð ákveðinni hylli í nýfrjálsum ríkjum Austur-Evrópu þar sem hugmyndir um vestrænt lýðræði hafa verið gerðar tortryggilegar um nokkurra áratuga skeið. Einnig hér á landi þar sem norræna lýðræðisformið okkar varð fyrir áfalli með hruninu.
Frelsishugmyndir netsins
Nýjar frelsishugmyndir breiddust út með þróun upplýsingatækninnar. Þær eru oft kallaðar frelsishugmyndir netsins. Netið gerbreytti samskiptamöguleikum aðila í stjórnmálum og ekki síst aðstöðu grasrótarhreyfinga, það hafði og hefur ekki síst áhrif á pólitíska baráttu og aðstöðu aðila í stríði og friði víða um heim. Þær hugmyndir sem hér er vísað til eru um (a) nýtt og aukið tjáningarfrelsi, (b) um réttinn til þess að vita og (c) um jafnrétti og jafna stöðu aðila sem í seinni tíð er kallað net neutrality.
Tækni Internetsins er lykilatriði í þessu tilliti. Hún byggir á jöfnuði milli aðila þannig að þeir geta bæði verið í móttöku- og þjónustuhlutverki sem var umsnúningur frá stjörnunetum símafélaganna. Þá er uppbygging þess eiginlega alveg frjáls, það er hægt að bæta við það frá hvaða punkti sem er sem þýðir að erfitt er að hlera á einum stað (nema kannski eyjar) og sendingar rata ekki alltaf sömu leið, sendingaleið ræðst af álagi. Þá er tækni netsins ekki höfundarréttarvarin.
Vestræn stjórnvöld sáu möguleikana í netinu og að með sölu ríkissímafélaganna og tilkomu samkeppni í fjarskiptum, en hvort tveggja varð fljótlega keppikefli lýðræðislegra ríkisstjórna, var talið að búið væri að sjá við hættunum sem George Orwell hafði réttilega bent á í bók sinni Nineteen Eighty-Four (1949) að fylgdu samruna síma- og tölvutækni. Hann gekk út frá stjörnuneti í ríkiseigu. Þannig sameinaðist tölvufólk síðustu áratuga, aktívistar og stjórnmálamenn um að gera netið að því sem það er í dag, þótt deila megi um hvort frelsishugmyndir þess hafi allar gengið eftir en kúgunarhætturnar sem Orwell benti á hafa tekið á sig aðra mynd en hann spáði.
Netið hefur leikið stórt hlutverk við að frelsa minnihlutahópa og er t.d. óhugsandi að staða samkynhneigðra hefði batnað jafn mikið og raun ber vitni hér á landi nema vegna tilkomu þess. Þá hefur það kallað heilar þjóðir til frelsisbaráttu og er þá einkum litið til ríkjanna við botn Miðjarðarhafsins. Þar hafa þó veikleikar netsins orðið að aðalatriði, enda þótt það auðveldi byltingar, hefur það hvorki stofnanir né skipulag og í framhaldi af byltingunum í þessum ríkjum hafa sterkustu og best skipulögðu öflin í hverju þjóðfélagi tekið völdin, en ekki „almenningur“.
Þá hefur ekki verið minnst á aðalmálið varðandi frelsi netnotenda og raunar heilla þjóða, því stórir einkaaðilar, auðhringar, hafa í vaxandi mæli komið sér upp búnaði til þess að fylgjast með almenningi og gera sér upplýsingar um hann að féþúfu. Það hafa ríkisstjórnir nýtt sér og einkum ríkisstofnanir í BNA. Og hætturnar af ríkisvaldinu eru vissulega ekki horfnar, öll ríki sem vilja taka þátt í valdatafli í stærri málum í heiminum stunda eftirlit og framkvæma aðgerðir á netinu – og kosta þróun búnaðar í eigin þágu.
Hættur upplýsingafrelsisins
Hér skal að lokum tekinn útúrdúr sem sýnir að þróunin er ekki einhlít og áhrif netsins eru lykilatriði í umræðu um frelsi og lýðræði í dag. Því er varpað fram hvort frelsið og upplýsingarnar séu bara jákvætt afl. Þær valdefla vissulega almenning (e. empowerment) en spurning er hvort það þurfi að eiga sér takmörk. Það kann að styttast í að félagasamtök ráði yfir þekkingu og afli á gerð kjarnorkusprengjunnar (jafn veikt ríki og N.-Kórea ræður við að búa hana til). Vera má að „ábyrgir“ aðilar þurfi að kortleggja hvað hver jarðarbúi veit og til hvers hann er líklegur að nota þekkingu sína. Ef sú þörf er raunveruleg til þess að tryggja framtíð mannkynsins og jarðarinnar getur netið og upplýsingafrelsið í framtíðinni frekar dregið úr frelsi en aukið það.
Lokaorð
Það er óhætt að segja að íslensk stjórnvöld hafi ekki skilið hverjum klukkan glymur í þessu mikilvæga máli, með fáeinum undantekningum þó.
Í næstu greinum verður fjallað um stöðu Íslands, fyrst verður í greininni Rofin fyrirheit fjallað um stöðu upplýsingatæknimála hjá ríkinu, í greininni um Upplýsingasamfélag eða ekki af hverju við erum að missa og hvaða áhrif það virðist hafa á stjórnmál, síðan um mögulega framkvæmd þess í Framkvæmd netlýðræðis.