Í ársbyrjun rakst ég á formann Bændasamtakanna á göngunum í Bændahöllinni og spurði hvort ég ætti ekki að flytja búnaðarþingsfulltrúum svarta messu. Hann var ákaflega snöggur til svara og svarið var að sjálfsögðu nei. Þá var hugsun mín ekki víðtækari en það að mig langaði að rökræða við fulltrúa bænda hve illa samninganefnd þeirra hefðu farið með málstað sinn gagnvart búvörusamningum og gertapað stöðu þar sem þeir í fyrsta skipti átt kost á að verða með allt frumkvæmi í þeim viðræðum.
Síðan gerist það næst að ég glæpist til þess að horfa á upptöku frá sjónvarpsstöðinni ÍNN um miðjan janúar þar sem mætt var þrístirni bændaforystunnar til spjalls við Ingva Hrafn. Þennan þátt verða allir bændur að horfa á til að skilja vanda sinn en hann er að finna á vef LK. Þátturinn hét virðulegu heiti „Landbúnaður á tímamótum“, sem allir munu sammála um að sé réttmæli. Strax og ég hafði horft á þessa upptöku sem ég hefði frekast viljað kalla „álfar út úr hól“ hringdi ég í vin minn Baldur Benjamínsson og spurði hvers vegna hann væri slíkt illmenni að vekja athygli manna á þessu. Ég hafði aldrei í mínum villtustu draumum gert mér grein fyrir að Ingvi Hrafn kynni betri skil á tilgangi búvörusamninga en forysta bænda. Ingvi fór að vísu aðeins út af línunni undir lokinn þegar hann fór að brjóta varnargirðingar BÍ sem er eitt með betri málum BÍ frá formannstíð Haraldar Benedikssonar. Ekki var nú svo vel að þrístirnið gerði samt neinar þannig athugasemdir við málflutning Ingva heldur settu á samhengislaust spjall sem mér þykir ólíklegt að hafi geta skýrt nokkurn hlut gagnvart almennum áhorfenda. Fyrir mig leit þessi þáttur mest út sem pöntuð stillimynd fyrir fullyrðingu Ingva að fulltrúar bænda virtust alltaf tapa allri umræðu um sín mál.
Síðan hafa síðustu dagar verið uppfullir af fréttum og umræðu í tengslum við búvörusamninga, sem nú eru í gangi, sem mér virðist nánast að óþörfu bjóða heim fjörbroti íslensks landbúnaðar.
Ég fæ ekki betur séð en bændur verði að fara að gera sér betri grein fyrir núverandi stöðu og hún snýst um miklu meira en glataða samningsstöðu bænda og ég kem að síðar, heldur einnig að bændur verða að fá hæfari forystu en þeir hafa ratað í að hafa síðasta áratuginn. Ég þekki það betur en margir aðrir að þar hafa bændur úr miklum fjölda úrvalsfólks að spila.
Samningsstaða búvörusamningarnefndar
Víkjum þá aðeins nánar að samningsstöðu bænda gagnvart búvörusamningum, sem ég hef áður sagt að bændaforystan hafi að öllu leyti spilað úr höndum sér.
Strax við setningu búnaðarþings á síðasta ári þá boðaði landbúnaðarráðherra nýja og breytta sýn í samningamálum, sem var að flestu leyti mjög jákvæð. Þess vegna fullyrði ég að sjaldan eða aldrei hafi bændur haft skýrari og betri skilning af hálfu stjórnvalda en að þessu sinni. Að auki eru viðhorf í þjóðfélaginu landbúnaðinum hliðhollari en nokkru sinni áður. Fyrsta meiriháttar skipbrotið í samningamálum bera samt fleiri en efstu toppar í forystuliði bænda ábyrgð á. Þar á ég við ályktun síðasta búnaðarþings þar sem segir; „varað er við greiðslum út á ræktað og óræktað land þar sem slíkur stuðningur er líklegur til að eigngerast“.
Að hugsa sér að það sé aðalsamkoma atvinnugreinar, sem telur sig standa undir nafninu landbúnaður, sem sendir frá sér slíka ályktun. Þó að forystulið bænda hafi á tímabili verið mjög upptekið af störukeppni á ESB þá er ekki neitt sem segir að þörf sé til að apa upp allar hugmyndir þaðan. Ég hef sagt að slíkan stuðning tengdan landi megi vinna, framkvæma og hugsa í það minnsta á 101 mismunandi veg. Hins vegar hefur mér lærst betur og betur að mestu eituryrði núverandi bændaforystu eru vinna, fagleg reynsla og hugsun eins og víða mun koma fram í þessum texta. Stuðningskerfi til framtíðar verður og getur aldrei orðið annað en samningur lands og þjóðar um það hvernig við búum í sátt við landið. Allt annað gerir ekkert nema bjóða heim andúð gagnvart landbúnaði sem gæti orðið enn þungbærari og ósvífnari en fyrir þrem áratugum.
Þetta tengist um leið því að við upplifum í dag hraðari og meiri breytingar í viðhorfum og hugsunarhætti fólks en nokkru sinni áður. Hvað mestar eru þessar breytingar og sérstaklega verða á sviði loftlags- og umhverfismála. Í desember var haldinn fundur í París, sem áreiðanlega mun hafa meiri varanleg áhrif á hugsunarhátt og framvindu flestra hluta næstu áratuga en flest annað, sem gerst hefur á síðustu áratugum. Fáar þjóðir munu eiga meira undir hvað þar gerist en Íslendingar, þjóð sem lifir og mun lifa áfram meira af sjálfbærri og skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda en flestar aðrar. Nú var ekki svo að þessar hugmyndir hafi komið sem þruma úr heiðskýru lofti þar sem þungi þessarar umræðu hefur verið sívaxandi um allan heim og umræddur fundur boðaðar með nokkurra ára fyrirvara. Ekki verður samt séð að þetta hafi raskað hugsun þeirra, sem um búvörusamninga véla. Í stað þess að þetta hefði átt að vera eitt sterkasta vopn bænda í samningum að þessu sinni og gefa þeim þar visst frumkvæði í allri umræðu, eins og þeim bar að hafa, virðast þeir standa eftir sem saltstólpar í þessum málum. Þar er stefna bændaforystu sama og íslenskra stjórnvalda sem hefur einkennst af því að hægri höndin viti aldrei hvað sú vinstri gerir í stað þess að hugsa og vinna mál.
Þessar hraðfara breytingar samtímans gera það einnig að allar hugmyndir um tíu ára samning, sem verið hefur eitt aðaltromp bændaforystunnar í samningaviðræðum nú, hlýtur að vera kvalarfull samviskuspurning að samþykkja fyrir alla hugsandi alþingismenn, en vonandi er einhverja slíka að finna enn.
Framleiðslustýring – ríkisstuðningur við landbúnað
Þá vil ég víkja aðeins að helstu hugsunarvillu í allri umræðu dagsins um verðandi samninga sem er heilfryst hugsun bændaforystunnar að stjórnun framleiðslunnar sé það sama og stuðningur við bændur. Því miður urðu það örlög íslenskra bænda einna, að ég held í heiminum, að tengja saman þessa þætti. Eins og Ari Teitsson bendir á í stuttri grein í fyrsta tölublaði Bændablaðsins í ár þá þarf þetta alls ekki svo að vera og ætti raunar aldrei að verða af einföldum siðferðilegum ástæðum.
Aðeins langar mig að víkja að atriðum úr sögu framleiðslustýringar sem ég held að öllum sé hollt að þekkja aðeins til, sem því miður urðu í tímans rás meira glappaskot en nokkurn, sem að vann, grunaði þá. Á níunda áratugnum sat landbúnaðurinn undir stöðugum nánast hatursáróðri ákveðinna fjölmiðla, var borinn ákaflega óréttmætum sökum. Í lok þessa tímabils kemur þjóðarsáttin þegar fulltrúar launþega, bænda, vinnuveitanda og stjórnvalda taka höndum saman í baráttu við verðbólguna. Þáttur í þeim aðgerðum var endurskoðun á landbúnaðarkerfinu á þann hátt að bændur hættu að sækja tekjur sínar allar til afurðastöðvanna en þess í stað færðist stuðningur frá niðurgreiðslum yfir á beingreiðslur beint til bænda sjálfra.
Þegar þessi ákvörðun var tekin þá var ég fenginn að hálfu Stéttarsambandsins til að vinna hugmyndir um framkvæmd breytinganna ásamt fulltrúum atvinnurekenda og launþega. Þarna voru beingreiðslur teknar upp og við völdum þá einföldustu og auðskildustu framkvæmdaleið að tengja saman beingreiðslurnar og framleiðslukvótann, sem þá hafði verið við líðið um hálfan áratug. Ég get fullyrt það að enginn þeirra góðu manna sem að þjóðarsáttinni unnu grunaði það að innan fárra ára yrðu beingreiðslurnar í mjólk orðin með virkari fjármagnsmörkuðum þeirra græðgisvæðingar sem heltók íslenskt samfélag hálfum áratug síðar. Þarna reikna ég með að forystulið LK á þeim árum eigi efni í millikafla. Í ljósi sögunnar má því segja að samtenging framleiðslustýringar og ríkisstuðnings hafi verið mikið flaustursverk. Hitt þori ég að fullyrða að það mun ekki hafa hvarflað að nokkrum af þeim ágætu mönnum sem unnu hugmyndir þjóðarsáttar að þróun um eignvæðingu ríkisstuðnings yrði slík sem raunin varð.
Hverjir eru bændur? Umræða síðustu viku
Víkjum þá að umræðu vikunnar sem er að líða. Áður er rétt að víkja að þeirri goðsögn bændaforystunnar að unnið sé að heildarsamningi landbúnaðarins. Í þeim gögnum frá samningunum, sem þolað hafa að líta dagsljósið, minnist ég ekki að hafa séð einu orði minnst á hrossabúskap. Seint verð ég víst sakaður um að vera talsmaður hrossaræktar en óljós grunur segir mér að aukning framleiðslutekna í hestamennsku geti verið hlutfallslega meiri en í öðrum búgreinum á síðasta fimm ára tímabili samhliða uppgangi ferðamennskunnar. Mér hefur virst að einn sé sá hópur öðrum fremur sem kinnroðalaust kennir sig við bændur en það eru ferðaþjónustubændur. Þeir hljóta því að vera mjög nauðsynlegur hlekkur í allri umræðu um heildarmynd landbúnaðarins og þá ekki síst þegar kemur að áðurnefndu atriði um samskipti lands og þjóðar.
Það sem ég ætlaði samt að gera að umtalsefni voru viðtöl við forystumenn svína- og alifuglabænda í Morgunblaðinu í vikunni. Þar er haft eftir formanni svínabænda að sú spurning hljóti að vakna hver eigi samleið með hverjum í framtíðinni. Verði aðalárangur búvörusamninganna núna fyrst og fremst að brjóta niður samstöðu bænda hlakkar líklega í hugmyndasmiðnum.
Í dag voru síðan nokkur ekki síður furðuleg ummæli framkvæmdastjóra BÍ í þætti Helga Seljan í vikulokin. Í fyrsta lagi fannst mér margt breytt frá síðasta áratug síðustu aldar þegar ég var oft að ganga frá ýmiskonar pappírum með Geirmundi fyrir hönd KS um flutninga á greiðslumarki í mjólk milli búa og landsvæða. Nú var það svo orðið í máli Sigurðar, að KS virtist orðinn heilagur engill í þessum málum og enn furðulegra þar sem framkvæmdastjórinn lýsti sig síðan allkunnan innviðum í Framsóknarflokknum.
Enn furðulegri voru samt ummæli hans um mjólkurverð. Áður höfðu verið nefndar í þættinum þær ógnartölur um hlut kostnaðar kvótakaupa í mjólkurverði síðustu ára, sem því miður eru staðreynd. Framkvæmdarstjórinn benti á þá gríðarlegu sóknarmöguleika sem nýir samningar mundu skapa alveg eins og skuldir vegna greiðslumarkskaupa hefðu gufað upp á einni nóttu. Mér er hins vegar tjáð að enn sitji alltof margir mjólkurframleiðendur eftir með alltof mikinn fjármagnskostnað og skuldir vegna slíkra viðskipta þannig að í of mörgum krónum telur á hvern framleiddan lítir.
Staða mjólkurframleiðslunnar í ljósi búvörusamninga
Árið 2001 gaf RANNÍS út skýrslu sem mér ásamt nokkrum fleiri ágætismönnum hafði verið falið að vinna um framtíðarþróun íslenskrar mjólkurframleiðslu og mjólkuriðnaðar. Verkið var unnið að frumkvæmi LK. Þar kom fram að vinna yrði strax að grunnbreytingum á stuðningskerfi mjólkurframleiðslunnar og beingreiðslukerfið væri mögulega á síðasta snúningi. Þannig fengu forystumenn bænda skilaboð fyrir meira en áratug um þau atriði, sem nú eru að brjóta flest niður í höndum þeirra. Ekkert var hins vegar gert. Fyrir allnokkrum árum þegar mjólkursamningur var endurnýjaður voru gerðar bókanir um endurskoðun. Ekkert var gert. LK fór að vísu að sinna einhverri heimavinnu fyrir einu eða tveimur árum. Áratug síðar en eðlilegt hefði verið. Enn eitt dæmi um óbeit bændaforustunnar á öllu sem krefst þess að vinna og hugsa.
Það atriði sem hvað skiptastar skoðanir munu vera um í þeim samningum sem nú fara fram er um mjólkurframleiðsluna eru heimildir til stýringar hennar. Mín skoðun er að allar hugmyndir um mjólkurframleiðslu hér á landi án möguleika til virkar stýringar framleiðslunnar séu óraunhæfir draumórar, án þess stefna bændur þráðbeina leið í skipbrot framleiðslustefnu þeirrar í mjólk sem nú má sjá í löndum ESB. Bændur verða að gera sér grein fyrir að umfang íslenskrar mjólkurframleiðslu er ekki meira en nemur dagsinnvigtun stærstu mjólkurframleiðslufyrirtækjanna á meginlandinu og víða um heim. Hugmyndir um óljósan samkeppnismarkað á þessum grunni eru bull. Ljóst er að umframframleiðsla síðasta misseris hefur tæplega styrkt rekstrarlega stöðu MS. Reynsla síðustu áratuga bæði hér á landi og erlendis hefur þrátt fyrir allt kennt að hagkvæmasta og virkasta stýring mjólkurframleiðslunnar næst aðeins með að verðmætum sé ekki sóað í umframframleiðslu. Aðgerðir eins og ræddar eru í núverandi samningaumræðum um eftiráinngrip geta aldri orðið eins hagkvæmar og eru því vísvitandi sóun á almennafé, sem þarf sterk bein til að réttlæta á okkar tímum.
Hugmyndir um gripagreiðslur er annar þáttur, sem mikið einkennir núverandi samningsdrög. Þetta eru af tveim ástæðum aðeins draugar fortíðar. Gallar þeirra eru að þær munu ávallt draga úr hagkvæmni framleiðslunnar og slíkar aðgerðir hvorki getur né á nútímabúskapur að kalla yfir sig. Í öðru lagi verða vart framkvæmdar nokkrar aðgerðir, sem eru jafnt á skjön við breytt viðhorf til umhverfis og loftlagsmála. Eina hlutverk þeirra sem fæst séð er því að verða saltstólpar, eins konar minjar um fortíðahyggju búvörusamninganefndarmanna.
Tengslin við tvíflokkinn nú og áður
Eitt atriði enn held ég sé rétt að ræða og nauðsynlegt fyrir hinn almenna bónda að átta sig á er, að forysta bænda hefur ætíð verið að öllu leyti í höndum tvíflokksins, þar sem ætíð mun hafa verið gott samkomulag um skiptingu gæðanna. Vegna mikilla persónulegra kynna af mörgum úrvalsmönnum úr þessum hópi á síðustu nær fimm áratugum og má þar nefna Ara Teitsson, Sigurgeir Þorgeirsson, Hauk Halldórsson, Ásgeir Bjarnason, Gunnar Guðbjartsson og Halldór Pálsson, að fjölmörgum öðrum úrvalsmönnum ónefndum. Það er því ömurlegt að horfa í dag til bændaforystu, sem er orðinn helsti óvinur bænda og landbúnaðar í landinu. Ég fullyrði að aldrei gætti á þessum tímum beitingar á pólitísku valdi á neinn hátt og held ég að þar geti með mestum rétti vitnað til stafssögu minnar. Mér hefðu varla verið falin öll þau störf af þessum mönnum öllum eða Jóni Helgasyni sem ráðherra, hefði slík hugsun bærst hjá þessu fólki því að stjórnmálalegar skoðanir mínar hafa aldrei verið felumál.
Eftir að nýir mennirnir tóku við stjórn á síðasta áratug hafa pólitískir draugar hins vegar farið að gera sér of tíðförult í þessum samtökum. Þó að ég persónulega hafi sloppið við að horfast í augu við þá hef ég alltof margar öruggar fréttir af slíkri spillingu síðasta áratuginn. Þeir, sem taka við forystu bænda í framtíðinni, þurfa að gera sér þetta alveg ljóst og hreinsa þennan ömurlega blett af samtökum bænda.
Greinin er skrifuð laugardaginn 6. febrúar. Ég hafði viku áður beðið ritstjóra Bændablaðsins um rými fyrir greininni í blaði, sem út kemur 11. febrúar en á mánudagskvöld var mér tilkynnt að ekki væri rými fyrir hana í blaðinu. Forstöðumaður útgáfu- og kynningarsviðs, sem annast útgáfu blaðsins, heitir Tjörvi Bjarnason þurfi menn að ræða þessi mál frekar við ábyrgan aðila. Ég eftirlæt síðan bændum og öðrum lesendum að dæma hvers vegna greinin fékkst skyndilega ekki birt þar sem hún átti heima. Líklega er það í samræmi við stefnu bændaforystunnar að þessi umræða varði ekki íslenskan landbúnað og bændur.
Morgunblaðinu var boðin greinin til birtingar en var talin of löng fyrir það blað. Í framhaldinu hafði ég samband við Fréttablaðið þar sem komu jákvæð viðbrögð en þjóðmálaumræða virðist þar lítt virk þannig að þar hafa skrifin legið nokkuð á aðra viku án birtingar.