Útflutningsbann hófst á miðnætti í álverinu í Straumsvík eftir að félagsdómur úrskurðaði bannið löglegt. Kolbeinn Gunnarsson, formaður Verkalýðsfélagsins Hlífar, sagðist í viðtölum í gær, vonast til þess að þessi niðurstaða myndi þrýsta á um lausn á erfiðri kjaradeilu í Straumsvík.
Í sama streng tók
upplýsingafulltrúi álversins í Straumsvík, Ólafur Teitur Guðnason.
Næsta mál á dagskrá í þessari hörðu deilu, gæti verið það, að álverið myndi
draga úr framleiðslu, einfaldlega vegna þess að það getur ekki selt álið sem
framleitt er á meðan útflutningsbann er í gildi.
Miklir hagsmunir eru undir í málinu, fyrir Rio Tinto, en eins og kunnugt er, þá er í gildi launafrysting hjá fyrirtækinu á heimsvísu eftir að forstjórinn, Sam Walsh, gaf út fyrirmæli þess efnis. Ástæðan er erfitt rekstrarumhverfi á alþjóðamörkuðum, en verð á áli og ýmsum hrávörum, hefur lækkað mikið undanfarin misseri.
Vonandi verður þessi deila leyst sem fyrst, en stjórnendur Rio Tinto á heimsvísu
- forstjórinn sjálfur þar á meðal - hljóta nú að sjá að verkalýðsfélögunum
og starfsmönnum álversins er alvara, svo ekki sé fastar að orðið kveðið,
þegar kemur að baráttunni fyrir betri kjörum. Líklega verður deilan ekki leyst
nema að ganga að þeim kröfum sem þeir hafa uppi.