Ummæli Jóns Viðars Jónmundssonar í grein sem birt hefur verið í vefritinu Kjarnanum í garð Bændablaðsins og sviðsstjóra útgáfu- og kynningarsviðs eru í hæsta máta ómakleg. Jón hefur í nokkrum blöðum birt merkan greinaflokk undir fyrirsögninni "Úrvalstilraunir með búfé og tilraunadýr".
Þetta eru langar greinar og í þriðja tölublaði 11. febrúar kom fjórða greinin í þessum flokki sem var upp á 3.231 orð. Þessi grein fór á rúmlega eina og hálfa síðu. Í framhaldi af því að Jón staðfesti að þessi grein væri væntanleg sagði hann að líklegt væri að hann myndi óska eftir að fá að birta aðra grein. Þá var honum strax tjáð að ólíklegt væri að pláss yrði í sama blaðinu fyrir tvær greinar frá honum. Var þá ekkert vitað um endanlegt innihald þeirrar greinar, enda var hann ekki búinn að skrifa hana.
Þegar blaðið var langt komið í vinnslu á mánudeginum 8. febrúar sagðist Jón hafa sent blaðinu nýja grein sem hann segist nú hafa skrifað laugardaginn 6. febrúar og óskaði eftir birtingu á. Var hann þá strax minntur á fyrri orðaskipti um að ekki yrði pláss fyrir tvær greinar frá honum í blaðinu þá vikuna. Þegar greinin var svo opnuð kom í ljós að hún var upp á 2.166 orð sem myndi fylla heila síðu. Fyrir slíkt var einfaldlega ekki pláss.
Þegar þetta lá fyrir hótaði Jón að fara með greinina í aðra prentmiðla ásamt ásamt fullyrðingu um að Bændablaðið neitaði að birta greina vegna innihalds hennar. Honum var þá tjáð að hann réði því hvað hann gerði við greinina, en hann vissi það mætavel sjálfur að þessi fullyrðing væri alröng.
Þegar hér var komið sögu hafði Tjörvi Bjarnason, yfirmaður útgáfu- og kynningarsviðs, sem Jón nefnir sérstaklega í pistli sínum í Kjarnanum, enga vitneskju haft af þessum samskiptum ritstjóra Bændablaðsins og Jóns, né nokkur úr forystusveit Bændasamtaka Íslands. Var Tjörvi, sem yfirmaður sviðsins, svo upplýstur um málið í framhaldi af þessum orðaskiptum við Jón.
Í blaðinu 11. febrúar var birt önnur grein eftir bónda á Suðurlandi sem búið var að lofa birtingu á löngu áður, án þess að innihaldið væri nokkuð rætt. Sú grein var með harðri gagnrýni á bændaforystuna eins og innihaldið reyndist vera í grein Jóns. Í blaðinu sem kom út í dag, 25. febrúar, er enn önnur grein, líka með gagnrýni á forystu bænda. Áður hafa svo verið birtar fjölmargar greinar eftir Jón Viðar og ýmsa fleiri með gagnrýni á forystu bænda. Það er því fullkomlega ómaklegt að segja að Bændablaðið, ritstjóri, stjórnendur innan Bændasamtakanna eða forysta bænda hafi komið í veg fyrir birtingu á grein Jóns eða annarra sem fela í sér gagnrýni á forystu bænda.
Höfundur er ritstjóri Bændablaðsins.