Bill Gates, ríkasti maður heims og einn sá allra áhrifamesti, er maður glöggur og skrifar oft skemmtilega pistla á vefsíðu hans og Melindu, eiginkonu hans. Í lok síðasta árs stofnaði hann fjárfestingasjóð, Breakthrough Energy Coaliton, sem mun hafa það meginhlutverk að ýta undir tækniframfarir í orkugeiranum, með það að markmiði að nýta vistvæna orku og draga úr mengun af mannavöldum.
Mikilvæg atriði, þegar kemur að þessum markmiðum, er að minnka notkun olíu og kola, svo dæmi séu tekin, og leita leiða til að nýta orku betur og auka notkun vistvænna orkugjafa.
Gates hefur boðað skýr markmið, og hefur sagt að nauðsynlegt sé að allir átti sig á því, að um sameiginleg hagsmunamál þjóða heimsins sé að ræða. Það gangi ekki að ein þjóð hafa allt aðra stefnu en önnur, heldur þurfi samvinnu og samtakamátt í þessu mikilvægasta máli samtímans.
Það er hollt að máta stöðu mála á Íslandi inn í markmiðin sem Gates hefur sett sér, á grundvelli markmiða þjóða heimsins, sem náðist samkomulag um á fundinum í París í fyrra. Hvernig samræmist það markmiðum Parísarfundarins að vilja leita að olíu á Drekasvæðinu? Gæti það ekki verið mikilvægt framlag, að hætta við þau áform, og beita sér þá frekar fyrir orkutengingu Íslands við umheiminn, til dæmis með sæstreng?
Þetta eru stór málefni sem þarf að huga að. Það er ekki nóg að það verði gert í framtíðinni, heldur þolir umræða um þessi mál enga bið.