Kvikmyndaiðnaðurinn á Íslandi er í stórsókn, eins og gert hefur verið að umtalsefni í nokkur skipti í vetur. Á morgun kemur að einni af stóru stundunum í sögu íslensks kvikmyndaiðnaðar þegar Óskarsverðlaunin árið 2016 verða afhent. Fulltrúi Íslands, annað árið í röð, er Jóhann Jóhannsson, tónskáld, en hann er tilnefndur fyrir magnaða tónlist sína í kvikmyndinni Sicario.
Jóhann þykir vera með allra stærstu stjörnum kvikmyndartónlistarinnar um þessar
mundir, og nota virtir gagnrýnendur um hann stór orð, og að hann sé líklegur
til þess að hafa veruleg áhrif á kvikmyndaðnaðinn með tónlist sinni í
framtíðinni.
Hvernig sem fer, þá er árangur Jóhanns einstakur, og til vitnis um að hann
nýtur mikillar virðingar fyrir listsköpun sína.
Enn einu sinni eru það kyndilberar íslenskrar menningar sem helst efla ímynd
Íslands í útlöndum, og minna okkur á að allt
er hægt ef viljinn og hæfileikar fara saman.