Fyrir nokkrum dögum var haldin fasteignaráðstefna í Hörpunni. Ráðstefnan og umræða hennar er staðfesting á hversu lítið húsnæðispólítíkin hefur breyst frá 2008. Listinn yfir bakhjarla ráðstefnunnar er líka listi yfir helstu hagsmunaaðila á bak við (sér) íslensku séreignastefnuna í húsnæðismálum: Bankar og fasteignasalar. Samtök fjármálafyrirtækja, Lífeyrissjóðir og lánveitendur, ásamt fleirum.
Í raun snérist ráðstefnan aðeins um eitt búsetuform. Það er sama séreignastefna og fyrir 2008. Sem byggist á því að sem flestir kaupi og eigi sitt húsnæði. Og taki lán fyrir því. Og taki alla áhættuna í viðskiptum við volduga bakhjarla ráðstefnunnar.
Á ráðstefnunni hélt Ragnar Árnason, háskólaprófessor erindi. Megininntak þess voru yfirburðakostir séreignastefnunnar. Hann sagði leigufyrirkomulagið skapa viðbótarkostnað fyrir samfélagið vegna illrar umgengni leigjenda um það sem þeir eiga ekki.
Daginn eftir birtist hluti af ræðu prófessorsins í Speglinum: „Það þýðir það að leigusalinn verður að leggja í kostnaðarsamar tilfæringar og eftirlit til þess að tryggja það að leigutakinn geri þetta eins og hann á að gera þetta. Og þetta samanlagt veldur kostnaði fyrir samfélagið sem er talsvert há upphæð. Þess vegna er frá samfélagslegu sjónarmiði miklu betra að allir eigi sitt eigið húsnæði."
Þetta er athyglisverð niðurstaða.
Meginorsakir eignabólunnar sem sprakk 2008 á Íslandi var hömlulaus útlánastefna. Og skortur á valkostum meðal búseturforma. Með öðrum orðum: Allt of hátt hlutfall séreignar á húsnæðismarkaði. Þetta hlutfall er nánast það sama á Íslandi uppundir áratug eftir hrun.
Í Þýskalandi sem er þekkt fyrir stöðugleika á húsnæðismarkaði er séreign einungis um helmingur á við Ísland. Íslenska séreignarhlutfallið ýkir sveiflur og bólur á eignamarkaði. Það skapar kerfisáhættu, Áhvílandi lán geta farið fram úr andvirði viðkomandi eignar. Það gerðist síðast 1983, og svo aftur 2008 á íslandi. Í baksýnisspegli er þetta sagan um öll eggin í sömu körfu.
Ríkisfjölmiðillinn spurði ekki hver samfélagskostnaðurinn var þegar húsnæðismarkaðurinn hrundi með bankakerfinu 2008. Það má umorða spurninguna: Hvað kostaði samfélagið að vera ekki með sambærilegan „Not for profit " leigumarkað og nágrannalöndin ?
Spegillinn birti ennfremur tillögu prófessorsins til lausnar húsnæðisvanda ungs fólks: Að kaupa húsnæði og taka lán fyrir því. Prófessorinn vill að komið verði á fót Fjárfestingarsjóði íbúðarhúsnæðis. Sá sjóður ætti að úthluta fastri upphæð til þeirra sem væru að kaupa sér fasteign í fyrsta sinn. Hver einstaklingur gæti átt rétt á þremur milljónum og þannig gæti par átt rétt á sex milljónum ef það væri að kaupa fasteign að verðmæti 20 milljóna. Milljónirnar sex yrðu svo eignarhluti sjóðsins í húsnæðinu.
Þessi lausn er nánast afritun af „Help to buy", sambærilegri nálgun á samskonar vandamáli Í Bretlandi. „Help to buy" var hleypt af stokkunum í Bretlandi árið 2013. Helstu áhrifin virðast vera hækkun fasteignaverði. Á Londonsvæðinu hefur íbúðaverð hækkað langt umfram launaþróun. Húsnæðisvandi ungs fólks eykst með ári hverju.
Í umræðunni um leigumarkaðinn telja núverandi stjórnvöld hækkaðar húsaleigubætur renna beint í vasa leigusala. Myndi Íslenska útfærslan af „Help to Buy" ekki á sama hátt renna beint í vasa lánveitenda í formi hækkunar á fasteignaverði? Eða sem einskonar ríkisstyrkur til fjármálafyrirtækja? Og viðhalda ýktu eignaverði?
Ráðstefnan sýnir í hnotskurn hvernig 2007 andinn svífur aftur yfir Íslenskum húsnæðismálum.
Húsnæðisvandamál/kerfisvillur fyrir 2008:
Of hátt séreignahlutfall / lánahlutfall eigna. Skortur á „skandinavískum" leigumarkaði, Allt of mikil ítök fjármálafyrirtækja á húsnæðismarkaði, Skortur á "nonprofit" húsnæðispólítík. Kerfisáhætta,með ýktum hækkunum á eignaverði.
Lausn á núverandi (2008) húsnæðisvandamáli:
Enn hærra séreigna/lánahlutfall eigna. Enn meiri skortur á „skandinavískum" leigumarkaði. Enn meiri ítök fjármálafyrirtækja og beinna hagsmunaaðila á húsnæðismarkaði. Enn meiri kerfisáhætta,með ýktum hækkunum á eignaverði.
Nú er bara spurningin hvaða stjórnmálaflokkur býður aftur 100% lán til húsnæðiskaupa fyrir næstu kosningar.
Við þekkjum ferlið.