Margir helstu forystumenn Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum eru farnir að berjast hatrammlega gegn Donald Trump, sem nú er langsamlega vinsælasti frambjóðandi flokksins fyrir forsetakosningarnar í nóvember.
Sá sem hefur verið í mesta frumkvæðishlutverkinu í þeim efnum, um nokkurt skeið, er Paul Ryan, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings og fyrrverandi varaforsetaefni Repúblikana. Ryan, sem er 46 ára gamall, hefur gagnrýnt Trump harðlega - en þó undir rós - að undanförnu, nú síðast fyrir að fjarlægja sig ekki meira frá forystumönnum kynþáttahaturssamtakanna Ku Klux Klan. Þá var hann í hópi fyrstu manna til að halda blaðamannafund og mótmæla hugmyndum hans um að banna múslimum að koma til Bandaríkjanna, og sagði þær augljóslega fara gegn stjórnarskrá Bandaríkjanna og ekki í takt við persónu- og trúfrelsi.
Ömurlegar frelsisskerðandi hugmyndir Trumps, eins og að loka á ferðir múslima til Bandaríkjanna og reisa vegg við landamærin við Mexíkó - á kostnað Mexíkóa að sögn Trumps - eru órafjarri hugmyndum sem Repúblikanaflokkurinn stendur fyrir í grunninn. Glæst saga flokksins þegar kemur að afnámi þrælahalds, þar sem Repúblikaninn Abraham Lincoln var kyndilberi frelsins og mannréttinda, er í raun smánuð með þessum málflutningi Trumps. Hann spilar á lægstu hvatir og stórskaðar stjórnmálin í Bandaríkjunum, og vegna þess hve þau hafa mikil áhrif, þá ýtir þetta við öfgakenndum hugsunarhætti fordómafullra víða um heim.
Það er erfitt að staðsetja mann eins og Trump á pólitískan kvarða. En það er hægt að benda á hið augljósa. Hann er fordómafullur.
Vonandi mun Repúblikanaflokkurinn hafa vit á því, þegar spurt verður að leikslokum í forvali flokksins, að hafna ömurlegum fordómum Donald Trumps, og velja frekar til forystu fólk sem getur vel staðið fyrir umdeild mál, en ber þó ekki með sér fordóma, kynþáttahyggju og sundurlyndi sem vart á sér hliðstæðu í Bandaríkjunum í seinni tíði.
Kappræðurnar á Fox í nótt, þar sem fulltrúar Repúblikana tókust á, voru ekki til þess fallnar að auka bjartsýnina, en undiraldan í flokknum, sem virðist vera að koma upp á yfirborðið, gæti þrýst málum í betri farveg og útilokað með öllu að Donald Trump verði næsti forseti Bandaríkjanna.