Staða efnahagsmála á Íslandi er um margt góð um þessar mundir. Það uppgangur víðast hvar, atvinnuleysi lítið og merki um þenslu eru farin að sjást, ekki síst í byggingariðnaði. Enda ekki undarlegt, þar sem mikil vöntun er á húsnæði, einkum á höfuðborgarsvæðinu.
Til framtíðar litið eru samt markar spurningar aðkallandi. Hvernig ætlar Ísland að verða hluti af alþjóðavæddum viðskiptaheimi? Er skynsamlegt að reka eigin mynt, með öllu sem því fylgir, í 330 þúsund manna samfélagi? Er einhver tegund af haftabúskap heillandi framtíðarsýn? Er hávaxtaumhverfið þolandi til lengdar?
Stjórnmálamenn virðast ekki hafa svo miklar áhyggjur af þessum spurningum, og njóta „veislunnar“ frekar.
Þau merki í hagkerfinu sem vekja mesta bjartsýni koma fram sjálfsprottnum tæknifyrirtækjum, þar sem hugviti hefur verið beitt með árangursríkum hætti. Dæmi um þetta er hugbúnaðarfyrirtækið Tempo, sem er í eigu Nýherja. Það varð til hjá starfsmönnum TM Software og hefur uppgangur þess verið ævintýri líkastur, einkum eftir hrunið.
Í fyrra námu heildartekjur þess ríflega 1,2 milljörðum króna, og jukust tekjurnar um 65 prósent milli ára. Allar tekjurnar koma erlendis frá, þar af um þriðjungur frá Bandaríkjunum.
Það eru fyrirtæki eins og þessi sem gefa von um að framtíðin sé björt. En það þarf að hlúa að þeim, og gefa þeim færi á að vaxa inn í framtíðina og skapa jarðveg fyrir fleiri sambærileg fyrirtæki. Stjórnmálamenn mega ekki forðast að svara erfiðu spurningunum um þessi mál. Vonandi gefa þeir sér tíma til að koma fram með skýr svör við spurningum eins og þeim, sem hér eru nefndar, fyrir kosningarnar á næsta ári.