Í Bandaríkjunum er mikil spenna á hinu pólitíska sviði, þar sem tekist er á innan Repúblikana og Demókrata um hverjir verði fulltrúar flokkanna í slagnum um embætti forseta Bandaríkjanna, en kosið verður í nóvember á þessu ári.
Bernie Sanders og Hillary Clinton eru í harðri baráttu í einstökum ríkjum, en í könnunum í augnablikinu hefur Hillary vinninginn. Sanders er hins vegar með mikinn kraft í sinni baráttu og hefur sótt á í könnunum, í einstökum ríkjum, að undanförnu.
Ótrúleg staða er uppi hjá Repúblikönum, sem á sér vart fordæmi á síðustu áratugum. Forystumenn flokksins á landsvísu hafa miklar áhyggjur af því hvernig frambjóðendur flokksins, sérstaklega Donald Trump og Ted Cruz - sem eru í forystu í könnunum - tala opinberlega. Nú síðast sagði Colin Powell, fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna og þungavigtarmaður í Repúblikanaflokknum til margra ára, jafnvel þó hann hafi stutt Barack Obama bæði 2008 og 2012, að umræðan væri óboðleg. Þetta „virðingarleysi“ gengi ekki. Vísaði hann til almennrar umræðu, og ekki síst þegar frambjóðendur væru að takast á.
Það er hægt að nefna margt, í þessu samhengi, sem er óboðlegt. Orð Donalds Trumps um innflytjendur frá Suður- og Mið-Ameríku - sem hann kallaði upp til hópa glæpamenn og nauðgara - og síðan tal hans um að loka á ferðir múslima til Bandaríkjanna, er eitthvað sem mikilvægt er að ræða um vel og vandlega. Rifja upp reglulega, svo þau gleymist ekki.
Þessir einfeldningslegu og viðurstyggilegu fordómar eiga ekkert sameiginlegt með hægri eða vinstri pólitík, jafnvel þótt stjórnmálafræðingar reyni eftir fremsta megni að staðsetja fordóma sem þessa á pólitiska kvarða. Fordómar eins og þeir sem Trump hefur látið frá sér - og Cruz líka - eru til þess fallnir að stórskaða pólitíska umræðu, og draga fram fordómafullt fólk út á torg. En það má ekki forðast að ræða þá staðreynd, að þessir frambjóðendur tali með þessum hætti. Því það eitt og sér, að hræðast að ræða um fordómana, getur leitt hina fordómafullu til sigurs. Málefnaleg rökræða er beittasta vopnið gegn fordómum. Hún mun vafalítið reynast Trump og Cruz erfið, eftir því sem líður á baráttuna.