Í fyrri greinum hefur verið dregin upp mynd af miklum andstæðum sem varða stjórnmál og stjórnsýslu hér á landi. Annars vegar af stjórnkerfi sem hafnar samfélagsáhrifum upplýsingatækni og staðnaði á margan hátt (m.a. tæknilega og því hvað varðar vinnubrögð) á síðustu öld, einkum fyrir tilstilli hægri hugmynda um aðgerðaleysi ríkisins í upplýsingatæknimálum. Á ákveðnum sviðum mælist staða rafrænnar þjónustu ríkisins svipuð og þriðja heims ríkja.
Hins vegar eru fyrir hendi væntingar upplýsingatæknivæddasta almennings í heiminum sem notar netið mest allra samkvæmt mælingum - væntingar um aðgang að opinberum upplýsingum og aðkomu að stjórn landsins. Þá er bæði átt við dagskrá opinberra mála og efni þeirra.
Áður en lengra er haldið er rétt að nefna að þeir sem eru innan við þrítugt eru jafnan kallaðir stafrænt innfæddir (e. digital native) og nota netið mest allra. Síðan er þeim sem eldri eru skipt í tvo hópa; miðaldra og þá sem eldri eru og sveigjan í notkunarkúrfunni er við sextugt hér á landi (miða má við 1955 sem fæðingarár). En taka má fram að eldra fólk notar netið sífellt meira þannig að það virðist draga úr þeirri sveigju.
Einnig er mikilvægt að muna að notkun tölvutækninnar og netsins og þar með þeirra skriflegu samskipta sem því fylgir hefur afar sterkt orsakasamband við menntun (jákvæð fylgni) og næstum því jafn sterkt við tekjur, bæði hér á landi og annars staðar.
Við skulum líka skilgreina þann veruleika eða hugmyndaheima sem takast á vegna mótsagnarinnar sem hér er fjallað um; annars vegar er „gamli heimurinn“ sem táknar eldri vinnubrögð og viðhorf í stjórnmálum og stjórnsýslu. Sá heimur notar enn að nokkru leyti hliðræna tækni (e. analog), munnleg samskipti og dagblöð og ritaðar heimildir. Hins vegar er „nýi heimurinn“ sem er raunveruleiki þeirra sem samþætta upplýsingatæknina og netið eigin lífi. Í honum eru stafrænt innfæddir íbúar og vaxandi hluti miðaldra og eldra fólks.
Höldum okkur við samfélagsleg áhrif netsins eins og þau eru skilgreind m.a. af stjórnsýslustofnun Sþ. (UNPAN) og sem sett voru fram í Millenium markmiðum samtakanna þótt áhrif nýrrar tækni séu töluvert flóknari: Gagnsæi, samráð og frelsishugmyndir netsins. Ef þessi hugtök verða að veruleika getum við talað um upplýsingasamfélag framtíðar.
Birtingarmyndir andstæðnanna
Hér verður því haldið fram með réttu eða röngu, enda liggja rannsóknir ekki fyrir, að þessar andstæður endurspeglist í nánast fordæmalausum fylgissviptingum í íslenskum stjórnmálum. Nýi heimurinn hefur fundið nýtt stjórnmálaafl eða staðgengil (e. proxy) framsækins stjórnmálaafls sem eru Píratar. Sífellt fleiri hafna fjórflokknum og stafrænt innfæddir styðja Pírata í um eða yfir 50% tilfella samkvæmt mælingum.
Gamli og nýi heimurinn takast á um skoðanamyndun í landinu. Helstu verkfæri gamla heimsins eru dagblöð (sem víða er hætt að gefa út í erlendum stórborgum) og aðrir hefðbundnir fjölmiðlar s.s. línulegt útvarp og sjónvarp. Gömlu leiðtogarnir nota gömlu miðlana og berjast um að komast í fyrstu fréttina, í drottningarviðtöl og fá ljósmynd af sér á forsíðum. Hins vegar er fréttamiðlun og fréttatengd miðlun mikið uppbrotnari í nýja heiminum og hver sækir sér það sem hann hefur áhuga á og fylgist með. Facebook er sennilega leiðandi miðill fyrir skoðanamyndun og dreifingu frétta og viðhorfa sem varða fréttir. Barátta er um skoðanamyndunina í samfélaginu. Við höfum tvö sett af leiðtogum í því efni sem hvorir tilheyra sínum heimi.
Hér er því um að ræða valdabaráttu milli ungs fólks sem vill endurnýjað skipulag á því hvernig sameiginleg mál eru unnin og stjórnkerfis sem hefur misst tengslin við framþróun hugmynda á Vesturlöndum. Þar sem framtíðin er unga fólksins og tæknin þróast áfram með veldisvexti er nokkuð ljóst hvernig slagurinn endar.
Norrænar og alþjóðlegar fyrirmyndir
Áhersla er á það lögð af alþjóðastofnunum og vestrænum ríkisstjórnum að hagnýta áhuga ungs fólks á netinu til þess að efla lýðræðið. Þá er átt við hefðbundið vestrænt fulltrúalýðræði. Í fyrri greinum hefur verið fullyrt að stjórnsýslan eigi að framkvæma áhrif netsins og má rökstyðja það með alþjóðlegum fyrirmyndum lýðræðisríkja. Munum að í Evrópu og þar með talið á hinum Norðurlöndunum er stjórnsýslan mjög sterk.
Þannig er það framkvæmdavaldið sem býr til upplýsingasamfélag framtíðar, samþættir gögn og býr til ríkisgagnagrunna – og á gögnin sem til þarf eða hefur rétt til að sækja þau. Það er líka framkvæmdavaldið sem semur lögin, er oft mörg ár að því og samkvæmt rannsóknum er ljóst að undirbúningur er mikið betri í nágrannaríkjunum en hér. Gjarnan liggja rannsóknir að baki nýrri lagasetningu og víðfeðmt samráð er haft við hagsmunaaðila, stjórnarstofnanir og jafnvel almenning þannig að samstaða myndast um lagasetninguna. Því er það svo að norrænu þjóðþingin eru einkum staðfestingar- og eftirlitsaðilar fyrir framkvæmdavaldið, breyta frumvörpum lítið og í sumum löndum alls ekki og minnihlutaálit þingnefnda eru nánast óþekkt. Þetta segir okkur að átakastjórnmál eru síður stunduð á Norðurlöndunum en hér og allir aðilar málsins, líka minni hlutinn, kemur að mótun mála meðan „the winner takes it all“ mottóið gildir hér.
Stjórnarframkvæmd nágrannaríkjanna einkennist þannig af miklu valdi stjórnsýslunnar og minni hlutans, bæði í samfélaginu og á þingi (þingið hefur málskotsréttinn í Danmörku og þar er eðlilegt að staðsetja hann í lýðræðisþjóðfélagi). Ráðherrar hafa gjarnan þunnt eyra fyrir óskum almennings. Því geta mál komist á dagskrá eða til framkvæmda í takt við almannaviljann. Þá er markvisst unnið gegn spillingu og í sumum tilvikum segja ráðherrar af sér ef þeir tapa í skoðanakönnunum eða þeir misstíga sig.
Því er það svo að upplýsingatæknin og netið hafa ekki valdið miklum samfélagslegum andstæðum á hinum Norðurlöndunum, stjórnsýslan býr til upplýsingasamfélag framtíðar og breytir samfélaginu jafnt og þétt og stjórnmálin deila valdi. Vissulega eru þó til grasrótarhópar sem vilja fella norræna stjórnkerfið og krefjast beins lýðræðis, en þeir njóta takmarkaðs fylgis.
Átakapunktar
Þótt undarlegt megi virðast eru lítil átök um uppbyggingu upplýsingasamfélag framtíðar hér á landi. Píratar leggja ótrúlega litla áherslu á það og fjórflokkurinn enn minni.
Andstæðurnar í samfélaginu (milli nýja og gamla heimsins) eru orðnar svo djúpar og tiltrú almennings á stjórnvöldum svo veik og hefur verið frá fjármálahruninu – að hávær krafa er uppi um að veikja eða fella norræna stjórnkerfið okkar og taka upp beint lýðræði. Krafan var studd af Stjórnlagaráði, hún er studd ötullega af Pírötum og stjórnmálamenn gamla heimsins ræða varla um breytingar á stjórnmálum og stjórnsýslu nema til þess að taka undir hana, rétt eins og þeir eigi líf sitt undir því. Vinstri forystan gengur lengst, en jafnvel forysta miðjuflokka fylgir á eftir.
Krafan um beint lýðræði er bandarísk eins og margar af hugmyndum netsins. Hugmyndafræðin gengur út á að almenningur eigi að ráða með einhverjum beinum hætti og einstaklingshyggja er undirtónninn. Stjórnvöld og ríkið er þá talið óvinir almennings og að allt vald sé spillt. Þetta er sama hugmyndafræðin og réttlætir vopnaburð almennings, það að einstaklingurinn verjist ranglátum stjórnvöldum sem ótvírætt ber að vantreysta. Hún tekur á sig margs konar myndir, t.d. hugmyndir um að samfélagslegt vald sé í eðli sínu neikvætt, en ekki að það sé leið lýðræðisins til þess að gefa stjórnmálaöflum tímabundið tækifæri til þess að endurbæta, þróa og breyta samfélaginu. Þannig er trausti, samvinnu og samstöðu Norðurlandabúa hafnað, gildi sem þó voru útbreidd hér á landi áður.
Ekki þarf að hafa mörg orð um að beint lýðræði er allt of einfalt stjórnkerfi fyrir nútíma samfélög, hefur marga þekkta og óyfirstíganlega galla sem lesa má um í nánast hverri einustu kennslubók í stjórnmálafræði og hefur valdið ómældu tjóni þar sem það hefur komið til framkvæmda, s.s. í Kaliforníu.
Verst er þó að líklega mun það veikja fagmennsku, skipuleg vinnubrögð og vandaðan undirbúning og það gæti dregið úr samfélagslegu hlutverki framkvæmdavaldsins (þessi atriði eiga að einkenna störf þess). Áherslan er á stjórnmálalega lausn enda þótt fagmennska berist ríkinu frá háskólunum til framkvæmdavaldsins sem styrkist með því að fá til starfa ungt vel menntað fólk sem á að leiða samfélagið og þróa sameiginlegar reglur. Sú hugmynd að virkur almenningur (aktívistar) taki betri ákvarðanir en alþingismenn er sérkennileg og ekki síður sú áhersla að koma að málum eftir að þau eru frágengin og samþykkt af Alþingi. Í nágrannaríkjunum er samráðið á undirbúningsstigi mála.
Nýi heimurinn gerir kröfu um að landið verði eitt kjördæmi. Það mætir ekki nýjum áhrifum netsins, en ef fylgni er milli menntunar og auðs annars vegar og búsetu hins vegar þá verður að minnka kjördæmi verulega til þess að allir íbúar hafi fyrirsvar. Munum að kjördæmaskipulag er annað en vægi atkvæða sem er í hæsta máta eðlilegt að jafna.
Þegar hefur verið rætt um kröfuna um netkosningar (í annarri greininni).
Hvað vilja Píratar?
En lítum til stjórnmálanna. Þau eiga að hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu og grípa inn í ef eitthvað fer úrskeiðis. Meðal stjórnmálaflokkanna hafa Píratar sérstöðu og eru flestir þeirra miklir áhugamenn um upplýsingasamfélag framtíðar. En í raun leggja þingmenn þeirra þó áherslu á annað.
Á töflu 1 kemur fram að Píratar hafa flutt 10 frumvörp sem varða upplýsingasamfélag framtíðar (af 27 frumvörpum þeirra). Þar af snúast 8 þeirra um einstaklingsfrelsi (guðlast, helgidagafrið, lengd vinnuviku (sem margir fræðimenn telja spurningu um frelsi), símahlerun og refsingar sem varða tjáningarfrelsi) og þingmálin sem varða gagnsæi eru um afmörkuð þröng mál, en ekki um almenna breytingu upplýsingatæknimála ríkisins eða almennt um breytt vinnubrögð stjórnsýslu.
7 þingsályktanatillögur Pírata af 21 varða upplýsingasamfélag framtíðar. Þar er það sama uppi á teningnum. Áhugi á einstaklingsfrelsi. Þingsályktunartillaga Birgittu Jónsdóttur um netjafnræði (e. net neutrality) er þó almenn og í takt við alþjóðleg fyrirmæli.
Af þingmálum Pírata má ráða að áherslur þeirra eru á einstaklingsfrelsi en ekki upplýsingasamfélag. Einstaklingsfrelsi er ekki endilega neikvætt og er oft í takt við alþjóðleg fyrirmæli þó þau séu ekki síður um jafna aðstöðu. En hafa verður í huga að þeir vilja fremur frelsi til en frelsi frá. Frelsi frá er þó ekki síður mikilvægt og margar alþjóðastofnar hafa lagt áherslu á það. Munum að frelsi til getur ógnað mannréttindum, persónuvernd og öryggi almennings.
Í fjölmiðlum hafa þeir einnig lagt áherslu á beint lýðræði og tillögur Stjórnlagaráðs og gert þau mál að skilyrði. Þau mál eru ekki í takt við áhrif netsins.
Er hægt að sætta andstæðurnar?
Stjórnvöld eru í aðstöðu til þess að mæta kröfum unga fólksins. Þau þurfa ekki að gera það í öllu efni og skilyrðislaust, en í nógu miklum mæli til þess að dragi úr andstæðum í samfélaginu.
Því miður hafa þau ekki borið gæfu til þess. Enn bólar ekki á að Stjórnarráðið hefji markvissa tölvuvæðingu og myndi gagnsæi, enn hamast æðstu fyrirmenn þjóðarinnar gegn almannavilja og hafna þannig samráði og enn er ekki orðið við frelsishugmyndum netsins.
Því lengur sem gamli heimurinn berst gegn framþróuninni og því að gefa eftir af völdum sínum því meira tapar fjórflokkarnir af fylgi. Það er þó ekki það alvarlega sem gerist. Nú er að myndast meirihlutafylgi meðal þjóðarinnar til að veikja og jafnvel fella norræna stjórnkerfið með beinu lýðræði. Ef fram heldur verða þau sjónarmið ofan á eftir næstu kosningar. Ef svo fer kann vanræksla ríkisins gagnvart upplýsingatækninni að hljóta harðari dóma í sögunni en hér eru kveðnir upp.
Lokaorð
Hér lýkur þessum greinaflokki um upplýsingasamfélag framtíðar. Að lokum er spurt hvort skynsamlegra sé að þróa og styrkja norræna lýðræðiskerfið okkar eða breyta um kerfi. Að vilja breyta stjórnskipulaginu með beinu lýðræði þýðir að Íslendingar fara aðra leið en nágrannaríkin. Þannig verður það hlutskipti þjóðarinnar að þróa nýtt lýðræðisform. Þetta minnir á að sama þjóð sagðist geta leitt aðrar í þróun fjármálaþjónustu fyrir nokkrum árum. Nema hvað nú er ekki verið að leika sér með peninga, heldur með sjálft stjórnkerfið.