Það var merkileg umfjöllun í Kastljósi RÚV í gær, þar sem innkaup hins opinbera voru til umfjöllunar, en svo virðist sem engin yfirsýn sé fyrir hendi þegar að þeim kemur. Það verður að teljast með nokkrum ólíkindum.
Jón Björnsson, sem skipaður var formaður starfshóps um samstarf ríkisins og einkamarkaðar, fór yfir þessi mál í viðtali við Kastljóss, og Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, segir að upplýsingar hafi vantað til þess að geta faraið gaumgæfilega ofan í þessi mál til þessa. Núna liggir staðan hins vegar fyrir, og augljóslega sé hægt að hagræða með breyttu og betra verklagi.
Það eru miklir hagsmunir í húfi fyrir skattgreiðendur, enda kaupir ríkið þjónustu fyrir 140 milljarða króna á hverju ári.
Eitt af því sem kjósendur verða að geta gert kröfur til stjórnmálamanna um, er að þeir vandi til verka þegar kemur að því að skipuleggja fjárútlát stofnanna og rekstur hins opinbera.
Það er gleðiefni, að það sé búið kortleggja stöðuna og hvernig augljóslega má gera hlutina betur. Fyrir það má hrósa efnahags- og fjármálaráðherra sérstaklega. En um leið er það hryggilegt, að þetta skipulagsleysi hafi fengið að viðgangast árum saman með tilheyrandi agaleysi í opinberum fjármálum. Það bitnar beint og milliliðalaust á almenningi.