Íslenskt atvinnulíf er nú á nokkuð grænni grein, sé horft til hagtalna. Hagvaxtarhorfur eru góðar, atvinnuleysi í lægstu lægðum - verður 1 til 2 prósent í sumar ef spár ganga eftir - og skuldir eru að lækka almenn í hagkerfinu. Fjárfesting er að vaxa sömuleiðis.
Heilt á litið, er hagkerfið nú að koma vel undan erfiðum árum eftir hrunið. Neyðarlögin voru grundvöllur þeirrar viðspyrnu og endurreisnar sem átt hefur sér stað, og er mikilvægt að Íslendingar gleymi því ekki, að sú aðgerð var einstök á heimsvísu og kom í veg fyrir allsherjarhrun hagkerfisins, hvorki meira né minna.
Það eru ákveðin forréttindi, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að geta beitt jafn róttækum lögum í krafti ríkisvalds - þvert gegn öllum kenningum um frjálsan markað - þegar neyðin er mikil.
Á vel heppnuðu Iðnþingi var horft til framtíðar, og fortíðar einnig. Formaður Samtaka iðnaðarins, Guðrún Hafsteinsdóttir, hélt góða ræðu þar sem hann fjallaði meðal annars um þörfina sem íslenskt atvinnulíf hefur fyrir útlendinga, en að því er fram kom í máli hennar mun þurfa um tvö þúsund erlenda starfsmenn inn í hagkerfið á hverju ári, næstu fimmtán ár.
„Við höfum á undanförnum árum misst þúsundir Íslendinga til annarra landa, fólk sem leitar að betri lífsgæðum, fólk sem vill auðga líf sitt og kynnast heiminum betur. Okkur finnst sjálfsagt að við getum ferðast út um allan heim en setjum okkur síðan í stellingar gagnvart fólki sem hingað vill koma. Ísland er orðið fjölmenningarlegt samfélag og við eigum að fagna því að hingað kemur fólk sem sér tækifæri í því að setjast hér að, stunda hér vinnu og byggja sér hér heimili. Það er engin ógn í því heldur nauðsynlegur fjölbreytileiki fyrir fámenna og einsleita þjóð,“ sagði Guðrún meðal annars.
Nú þegar mikill uppgangur virðist í kortunum í atvinnulífinu, og mesta kúnstin í hagstjórninni verður að koma í veg fyrir ofris - bæði krónunnar og neyslunnar - þá er gott að vita til þess að útlendingaandúð hefur ekki skotið rótum í íslensku atvinnulífi. Fólkið sem er í forsvari fyrir hagsmunasamtök í atvinnulífinu hefur verið duglegt að benda á mikilvægi erlendra starfsmanna, og vinnuveitendur lítilla fyrirtækja hafa sumir hverjir beinlínis fórnað nánast öllu sem þeir eiga til að hjálpa starfsmönnum sínum að vera áfram í landinu.
Passa þarf að ekki verði gengið of hratt um gleðinnar í efnahagslífinu, en það er gott að heyra það frá atvinnurekendum að hjartað er á réttum stað þegar kemur að málefnum útlendinga. Enda hefur Ísland góða reynslu af útlendingum og er algjörlega háð mikilvægu framlagi þeirra í hagkerfinu.