Óhætt er að segja að sjónarmið Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, um að byggja eigi nýjan Landspítala upp á Vífilsstöðum í stað þess að gera það við Hringbraut, hafi fallið í grýttan jarðveg hjá forstjóra Landspítalans, Páli Matthíassyni. Hann sagði í pistli á vef spítalans að það væri „óþolandi“ á hlusta á þessar útöluraddir í ljósi alvarlegrar stöðu spítalans, og ekki síður að búið væri að ákveða framtíðarstaðsetningu spítalans og nú væri verið að vinna eftir því að hann yrði við Hringbraut.
Vitað er að Sigmundur Davíð var ekki að tala í nafni ríkisstjórnar sinnar, þegar hann tjáði sig um efasemdirnar um Hringbrautina. Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, styður uppbyggingu spítalans á núverandi stað, eins og fram hefur komið, og stjórnvöld hafa reyndar þegar samþykkt aðgerðir og fjárútlát, þar sem gert er ráð fyrir uppbyggingu spítalans við Hringbraut.
Sé mið tekið af þessu, þá er eðlilegt að velta því fyrir sér, hvort þessi orð Sigmundar Davíðs hafi eingöngu verið vinsældarbrölt, þar sem engin innistæða er fyrir hendi, eða að ákvörðun um breytingar á staðarvali fyrir uppbyggingu spítalans sé formlega að fara koma fram.