Bankaráð Landsbankans hefur ákveðið að hætta, eftir að Bankasýsla ríkisins fór fram á það. Ástæðan er Borgunar-málið og hvernig að því var staðið að selja 31,2 prósent hlut í fyrirtækinu, til valinna fjárfesta í lokuðu ferli.
Bankaráðið hefur áður sagt, að það hafi verið mistök að vera ekki með opið söluferli.
Bankasýslan fór einnig fram á það, að Steinþór Pálsson, bankastjóri, myndi taka pokann sinn vegna málsins, en hann hyggst ekki hætta.
Bankaráðið segir í tilkynningu að Steinþór hafi staðið sig vel, og að Bankasýslan hafi gengið of langt með kröfunni um að Steinþór myndi hætta.
Þetta er sjónarmið sem vert er að gefa gaum, og vel hugsanlegt að þarna hafi hið fráfarandi bankaráð rétt fyrir sér. Bankaráðið er yfir bankastjóranum, og fer með hans málefni. Það er það sem þarf að reka hann, og þess vegna verður sú ákvörðun að vera sjálfstæð ákvörðun bankaráðsins. Bankasýslan, sem fer með hlut ríkisins í Landsbankanum (98,2 %), getur hins vegar með rétt lagt fram kröfu um að bankaráðið víki, þó varlega þurfi að fara, vitaskuld.
Eftir að Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, sendi Bankasýslunni bréf, þar sem talað var um mikilvægi þess að traust væri borið til Landsbankans - og Bankasýslan fjallaði síðan um í harðorðu bréfi - er ekki hægt að segja að það hafi komið á óvart að bankaráðið hafi ákveðið að stíga til hliðar.